Unga fólkið enn og aftur skilið eftir

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, segist hafa þungar áhyggjur af …
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, segist hafa þungar áhyggjur af stöðu ungs fólks vegna efnahagslegra áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, segir unga fólkið skilið eftir í aðgerðum ríkisstjórnar nú, rétt eins og eftir efnahagshrunið 2008.  

„Talað var um forsendubrest sem réttlætti þessa gríðarlegu eignatilfærslu en yngri kynslóðin fékk enga leiðréttingu,“ sagði Þórhildur í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag og vísaði í aðgerðir ríkisstjórnar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í kjölfar efnahagshrunsins. 

Þórhildur Sunna segir þá kynslóð enn berjast við að geta fjárfest í húsnæði. „Sú kynslóð er fyrsta kynslóð Íslendinga í áratugaraðir sem býr við lakari lífskjör en kynslóðin þar á undan,“ sagði þingmaðurinn, sem hefur þungar áhyggjur af því að nú eigi enn og aftur að skilja unga fólkið eftir. Hún sagði námsmenn hafa orðið fyrir forsendubresti vegna áhrifa kórónuveirunnar. Þeir fái engin svör um fjárhagslegt öryggi nema kannski að þeim býðst að skuldsetja sig frekar með sumarnámslánum „sem enginn bað um“. 

Á virkilega að skila ungt fólk eftir enn eina ferðina?

Þórhildur Sunna spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra hvort hún ætlaði „virkilega að skilja ungt fólk eftir enn eina ferðina?“

Katrín svaraði með því að benda á þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur þegar gripið til miði að því að koma til móts við ungt fólk, svo sem hækkun barnabóta og lengingu fæðingarorlofs. Þá benti hún á þrjú þúsund sumarstörf sem sköpuð hafa verið á vegum ríkis og sveitarfélaga vegna efnahagslegra áhrifa kórónuveirunnar. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég held hins vegar að við munum þurfa að taka stöðuna til að átta okkur á því hvort einhverjir lendi á milli skips og bryggju þrátt fyrir allar þessar umfangsmiklu aðgerðir og koma þá til móts við þann hóp námsmanna með einhverjum hætti,“ sagði Katrín. 

Þórhildur Sunna krafði forsætisráðherra þá um frekari svör við því hvað tekur við hjá þeim námsmönnum sem ekki fá vinnu í sumar. „Er hæstvirtur forsætisráðherra kannski bara sammála hæstvirtum félagsmálaráðherra um að það eigi ekki að láta þessa nemendur fá pening fyrir að gera ekki neitt?“ spurði hún. 

Katrín svaraði með því að ítreka orð sín um að það þurfi að ráðast í aðgerðir til að grípa þá sem lenda milli skips og bryggju í þessum aðgerðum. „Þessi útfærsla liggur hjá félags- og barnamálaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra og mér er kunnugt um að þau munu kynna nánari útfærslur í þessari viku.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert