Segir verkfallsvöld flugstéttanna mikil

Bolli segir völd flugstéttanna mikil þegar kemur að verkföllum.
Bolli segir völd flugstéttanna mikil þegar kemur að verkföllum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bolli Héðinsson, hagfræðingur og formaður efnhagsnefndar Samfylkingarinnar, segir laun flugstéttanna hjá Icelandair hafa hækkað langt umfram það sem eðlilegt geti talist og séu ekki í takti við það sem hafi gerst hjá launþegum almennt. Hann skrifaði færslu um málið á Facebook-síðu sína en í samtali við mbl.is viðurkennir hann að þetta sé eingöngu tilfinning sem hann hafi en vísar til þess hve mikil völd stéttirnar hafi þegar kemur að verkföllum þar sem mjög kostnaðarsamt sé að stöðva flugið. Það sé því yfirleitt samið áður en til verkfalla komi.

Bolli telur að einn kjarasamningur fyrir allar flugstéttir sé vænlegur …
Bolli telur að einn kjarasamningur fyrir allar flugstéttir sé vænlegur kostur. Ljósmynd/Aðsend

„Aðrir starfsmenn Icelandair eru ekki í þessari aðstöðu og því hafa þeir starfshópar þurft að láta sér nægja almennar launahækkanir í samfélaginu,“ skrifar Bolli.

Í samtali við mbl.is segir hann þau meðallaun stéttanna sem greint hefur verið frá í fjölmiðlum alls ekki lág laun.

„Ég tala um stéttirnar í einu lagi, ég kýs að gera það, en þetta getur verið misjafnt innan hópsins. En það er alla vega ljóst að þetta eru mjög eftirsótt störf. Þau eru það eftirsótt að ríkið nær ekki að keppa við launakjörin sem eru í boði, til dæmis fyrir flugfreyjur, á spítölunum. Þannig að þetta eru greinilega mjög góð kjör. Ég dreg bara þá ályktun þó að það sé ekki nema af því,“ segir Bolli og vísar þar til þess að margir hjúkrunarfræðingar starfi sem flugfreyjur.

Telur einn kjarasamning fyrir allar flugstéttir vænlegan

„Öllum Íslendingum þykir vænt um Icelandair og vilja félaginu allt hið besta og kjósa að fljúga með því ef nokkur er kostur. En ef launastrúktúrinn heldur áfram að vera sá sem hann var þá er félagið varla sjálfbært. Það þarf að takast á við það með einhverjum hætti, eins og auknu vinnuframlagi og lækkun launa. Það verður að vera eitthvað endanlegt. Því jafnvel þó að það takist að semja til fimm ára þá eru þau fljót að líða. Og hvað gerist þá?“ spyr Bolli.

Hann bendir á að til dæmis hjá álverunum hér á landi semji allar stéttir saman. Þannig geti ein stétt ekki hótað verkfalli einn mánuðinn og önnur þann næsta. Það sé vonlaus staða fyrir fyrirtæki að vera alltaf að semja við eina stétt á meðan önnur hótar verkfalli.

„Þess vegna hefur mér dottið í hug að það væri einn samningur fyrir allar stéttir hjá félaginu. Svo er mikið talað um hagnaðarhlutdeild og þá spyr maður sig af hverju er ekki hluti launanna greiddur í hlutafé félagsins? Þannig að það eru ýmsar lausnir til sem mér finnst ekki hafa verið leitað eftir sem væri hægt að nota.“

Í slíkum samningi, eins og Bolli telur vænlegan fyrir flugstéttir, væri þá sérákvæði fyrir hverja stétt fyrir sig, en samið væri í einu lagi og gildistími yrði sá sami fyrir allar stéttir. „Þá getur ekki ein stétt sagt honum upp og boðað verkfall heldur þurfa allir að gera það í sameiningu. Og þá er ekkert brotið á rétti einstaklinga til að fara í verkfall. Það er þá bara eitt stórt verkfall en ekki röð verkfallshótana.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert