Heiður að vera fyrsta „karlkyns fjallkonan“

Snorri var afar skrautlegur í tauinu eins og sannri fjallkonu …
Snorri var afar skrautlegur í tauinu eins og sannri fjallkonu ber skylda til. Ljósmynd/Spessi

„Ég var fjallkonan og ég var rétt kominn af stað með ræðuna sem var afskaplega falleg og hvetjandi og jákvæð þegar lögreglan birtist á svölunum. Það kom mér að óvörum,“ segir Snorri Ásmundsson, listamaður í samtali við mbl.is. Hann fór með görning á svölum Pósthússtrætis 13 fyrr í dag þar sem hann var „fyrsti karlmaðurinn til að vera fjallkona“, íklæddur gullituðum pallíettustuttbuxum, með skikkju, hárkollu og skrautleg gleraugu.

Lögreglan skarst í leikinn og var Snorri handtekinn eftir stutta stund af ræðuhöldum. 

„Þeir héngu mjög lengi yfir okkur og ætluðu að vera mjög vissir um að þetta myndi ekki gerast aftur og var eiginlega feginn yfir því að þeir hefðu ekki sett mig í steininn,“ segir Snorri sem er þó þakklátur fyrir þann tíma sem hann fékk. 

„Ég alla vega hef verið fjallkona í dag og ég er rosalega þakklátur fyrir það hlutverk.“

Daniel Leeb tók myndbandið sem er hér að neðan og sýnir ræðu Snorra og handtökuna.

Hitti fjallkonu og ákvað að verða sjálfur fjallkona

Spurður hvernig það kom til að hann hafi ákveðið að fjallkona skyldi hann vera nú á þjóðhátíðardegi Íslendinga segir Snorri:

„Ævintýrin gerast alla vega. Ég var einhvern veginn opinn fyrir því. Þetta var nú eiginlega þannig að ég var í heimsókn hjá vinkonu minni Guðrúnu Evu Mínervudóttur og hún sagði mér að hún væri fjallkona Hveragerðis. Ég hafði verið beðinn um að vera með gjörning á þessum svölum svo það var ekki úr vegi að ég væri fjallkonan í Reykjavík. Mér þótti ekki síst að fá að vera fyrsti karlmaðurinn til að vera fjallkonan. Það var mikill heiður að fá að vera fyrsti karlmaðurinn til að vera fjallkonan. Þetta er náttúrulega líka hlutverk sem karlmenn bjuggu til á sínum tíma.“

Snorri ætlaði sér að fara um víðan völl í ræðu …
Snorri ætlaði sér að fara um víðan völl í ræðu sinni. Ljósmynd/Spessi

Vildi tala um COVID og náttúruvernd

Snorri segir að ekki hafi verið um neins konar mótmæli að ræða. 

„Ég leyfi mér oft að gera hluti sem aðrir leyfa sér kannski ekki að gera og ég hvet auðvitað fólk til þess að gera meira vegna þess að það er ekkert sem bannar neitt.“

Snorri var rétt byrjaður á ræðu sinni þegar lögreglan stöðvaði hann en í ræðu sinni ætlaði hann að fara um víðan völl. 

„Ég ætlaði að tala um kynþáttasamruna og nauðsyn hans og auðvitað COVID og þá gjöf sem kórónuveiran er að gefa okkur. Það er að endurskoða hluti og læra að meta náttúruna vegna þess að við erum búin að valta yfir hana allt of mikið.“

Ljósmynd/Viðar Eggertsson

Spurður hvort hann muni taka að sér hlutverk fjallkonu aftur að ári segir Snorri:

„Ég veit það ekki. Maður veit aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér.“

Frekari vandræði voru á hátíðahöldunum en skilti með myndum af forstjóra Samherja og börnum hans birtust á bak við forsætisráðherra þegar hún fór með ræðu sína.

Edda Björgvinsdóttir er fjallkon Reykjavíkur í ár þó Snorri hafi gert heiðarlega tilraun til að deila þeim titli með henni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert