Jón Þór kjörinn formaður stjórnskipunarnefndar

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, er nýr formaður stjórnskipunar- og …
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, er nýr formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Jón Þór Ólafsson var kjörinn formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis á fundi nefndarinnar í morgun. Jón Þór tekur við af flokkssystur sinni, Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, sem sagði af sér formennsku og nefndarsetu í síðustu viku vegna „valdníðslu og linnulausra árása“ af hendi þingmanna stjórnarmeirihlutans.

Í samtali við mbl.is segir Jón Þór að nefndarformennskan leggist vel í hann. Spurður hvers vegna hann telji sig betur í stakk búinn til að takast á við starfið en Þórhildur Sunna, segist hann vonast til að nefndarstörfin muni ganga betur nú þegar framganga stjórnarliða er komin upp á yfirborðið. 

„Svona ástand þrífst vegna þess að það veit enginn af því. Nú er það komið mjög sterkt inn í umræðuna hvernig ástandið hefur verið,“ segir Jón Þór og bætir við að mikilvægt sé að nefndin sé starfhæf enda sé hún ein mikilvægasta nefnd þingsins. „Meginhlutverk nefndarinnar er að hafa eftirlit með ráðherrum og gagnsæi er lykillinn í því að gera nefndina starfhæfa.“

Samkomulag ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðu kveður á um að meirihlutinn fái formennsku í þremur af átta fastanefndum þingsins, og er stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ein þeirra. Í samræmi við það ákvað minnihlutinn að Jón Þór skyldi boðinn fram í embættið. Athygli vakti þó að Þorsteinn Sæmundsson, fulltrúi Miðflokksins í nefndinni, kaus einn manna gegn Jóni. Þá voru Brynjar Níelsson og Óli Björn Kárason, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, fjarverandi.

Aðrir þingmenn meirihlutans sátu hjá við atkvæðagreiðsluna en í bókun annarra úr meirihluta segir að í ljósi heildarsamkomulags milli stjórnar og stjórnarandstöðu sé litið þannig á að ekki sé þeirra hlutverk að taka afstöðu til þess hvernig stjórnarandstaðan hagar sinni skiptingu. 

Spurningum um hæfi Kristjáns Þórs ósvarað

Þingmenn Pírata hafa farið hörðum orðum um ákvörðun stjórnarmeirihlutans um að hætta frumkvæðisathugun á hæfi Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra vegna meintra tengsla hans við sjávarútvegsfyrirtækið Samherja.

Jón Þór segir ekki loku fyrir það skotið að kallað verði eftir nánari rannsókn. Fjórðung nefndarmanna þarf til þess, en að sögn Jóns Þórs hefur spurningum frá nokkrum nefndarmönnum, Andrési Inga Jónssyni, Guðmundi Andra Thorssyni og Þórhildi Sunnu ekki verið svarað. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert