Mótmæltu Pútín við rússneska sendiráðið

Fólk af að minnsta kosti þremur þjóðernum mótmælti í dag. …
Fólk af að minnsta kosti þremur þjóðernum mótmælti í dag. Rússar, Íslendingar og Nígeríumaður, að sögn Andrei. mbl.is/Arnþór

Andrei Menshenin, rússneskur blaðamaður sem yfirgaf heimalandið árið 2016 og fluttist til Íslands vegna skerts tjáningarfrelsis, var einn af þeim sem stóðu að mótmælum fyrir utan rússneska sendiráðið í dag.

Tilefni mótmælanna eru breytingar á rússnesku stjórnarskránni sem leyfa Vladimir Putin, forseta Rússlands, að sitja í embætti í tvö kjör­tíma­bil til viðbót­ar, eða til 2036. Rússar gengu til þjóðaratkvæðagreiðslu um breytinguna í dag en áður hafði rússneska þingið samþykkt breytinguna. Fyrstu niðurstöður úr atkvæðagreiðslunni benda til þess að breytingin verði samþykkt. 

Einnig kosið um bann við samkynja hjónaböndum

Lengd setu forseta er ekki eina breytingin sem kosið er um í dag en einnig er kosið um bann við samkynja hjónaböndum. Ef hún verður samþykkt mun stjórnarskráin banna samkynja hjónabönd. 

Andrei segir að á mótmælunum hafi fólk krafist frelsis fyrir Rússland, staðið fyrir lýðræði og beðið Rússa um að kjósa gegn breytingum Pútíns. 

„Þeir sem ólust upp í Sovétríkjunum vilja stöðugleika

Aðspurður segir Andrei að í dag sé meira um það að Rússar standi upp fyrir sjálfum sér og mótmæli yfirvöldum.

„Yngri kynslóðirnar eru duglegri við að mótmæla en þær eldri. Árið 2019 voru til dæmis stór mótmæli í Moskvu og þá var ríflega helmingur mótmælenda undir 25 ára aldri. Unga fólkið er opnara og duglegt við að sækja sér upplýsingar á netinu,“ segir Andrei.

„Þeir sem ólust upp í Sovétríkjunum vilja stöðugleika og telja gjarnan að allar breytingar séu til hins verra. Vandamálið er bara að Pútín er búinn að sitja á forsetastóli í tuttugu ár og fyrst honum hefur ekki tekist að bæta efnahagin á þeim tíma þá mun það aldrei takast.“

Fámennt var á mótmælunum og voru þau nokkuð friðsæl. Andrei segir að honum þyki Íslendingar flestir nokkuð meðvitaðir um málefni Rússlands og séu frekar andstæðir yfirvöldum þar en ekki. Sérstaklega sé hinsegin samfélagið á Íslandi afar meðvitað um réttindi hinsegin fólks í Rússlandi sem séu lítil sem engin. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert