„Stjórnvöld keyptu ekki“ tillögu Þórólfs

„Eins og ég sagði í minnisblaðinu þá getur vel verið …
„Eins og ég sagði í minnisblaðinu þá getur vel verið að það séu einhverjir lagalegir annmarkar á því að neita fólki um þetta [val á milli sýnatöku og sóttkvíarinnar],“ segir Þórólfur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég lagði það til að fenginni reynslu að við myndum reyna að girða fyrir þann leka að fólk væri að velja sóttkví og myndi svo ekki standa við það. Við erum með dæmi um fólk sem gerði það og jafnvel fólk sem smitaði út frá sér. Ég vildi reyna að girða fyrir þann möguleika en stjórnvöld keyptu það ekki,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir um þá ákvörðun heilbrigðisráðherra að fólk sem hingað komi til lands geti valið hvort það fari í tvær sýnatökur með nokkurra daga sóttkví á milli eða 14 daga sóttkví án sýnatöku.

Þórólfur mælti gegn því í minnisblaði sem hann lagði fram að 14 daga sóttkví væri valkostur en að hans sögn gæti það verið erfitt lagalega séð að bjóða fólki ekki upp á val um tveggja vikna sóttkví. Reglur um sýnatöku og sóttkví á landamærum verða endurskoðaðar eftir 1-2 vikur en Þórólfur býst við því að sambærilegar reglur muni gilda þar næstu mánuði. 

Er þá ógirt fyrir þann möguleika að fólk sem segist ætla í 14 daga sóttkví beri smit inn í landið? 

„Það eru náttúrulega ekki margir sem velja þetta. Það þarf þá bara að finna út hvernig sé best að herða eftirlitið með þeim sem velja sóttkvína svo það sé öruggt að fólk sé ekki bara að velja sóttkví til þess að sleppa við skimun,“ segir Þórólfur. 

„Ekkert óeðlilegt“ að stjórnvöld meti kosti með öðrum hætti

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvernig hertu eftirliti verði háttað en reglur um tvöfalda sýnatöku þeirra sem hingað koma eða 14 daga sóttkví tóku gildi á miðnætti. 

„Ég er að ræða við almannavarnir um það hvernig við getum hagað [hertu eftirliti].“

Þórólfur segir það ekkert stórmál að heilbrigðisráðherra hafi ákveðið að fara þvert á það sem Þórólfur mælti með. 

„Ráðherra og ríkisstjórn þurfa náttúrulega bara að vega og meta þær tillögur sem ég kem með. Ég legg bara rökin á borðið og mér finnst ekkert óeðlilegt að þau vegi það og meti út frá sínum sjónarhornum og sjái það kannski einhvern veginn öðruvísi. Ég er ekkert að kippa mér upp við það.“

Þórólfur hefur ekki óskað eftir endurskoðun á ákvörðun heilbrigðisráðherra. 

„Eins og ég sagði í minnisblaðinu þá getur vel verið að það séu einhverjir lagalegir annmarkar á því að neita fólki um þetta [val á milli sýnatöku og sóttkvíarinnar], bæði samkvæmt alþjóðalögum og alþjóðareglugerðum og svo framvegis. Það er náttúrulega stjórnvalda að vega og meta þetta út frá því. Það gæti orðið erfitt lögformlega séð að gera það og þá bara er það þannig.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert