Hlutfall virkra smita tífaldast

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Lögreglan

Hlutfall þeirra sem greinast með virkt smit við landamærin fer vaxandi og skýrist það líklega af vaxandi útbreiðslu kórónuveirunnar erlendis. Hlutfall þeirra sem höfðu virk smit við greiningu á landamærunum í júní og júlí var 0,03% en undanfarnar þrjár vikur er hlutfallið 0,3%.

Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í dag.

Hvað varðar stöðuna innanlands sagði Þórólfur að virkum smitum fækki hægt og örugglega og að sama megi segja um fjölda í sóttkví. Áfram megi búast við því að sjá tvö til sex ný innanlandssmit á dag, auk hugsanlegra lítilla hópsýkinga. Þetta sé allt í samræmi við spálíkan Háskóla Íslands.

60% þeirra sem greinast með virk smit við landamærin eru búsettir á Íslandi og 24% eru íslenskir ríkisborgarar, sagði Þórólfur.

Þá sagði hann veiruna í sókn í nágrannalöndum, svo sem Danmörku, Noregi og Bretlandi þar sem stjórnvöld eru að grípa til hertra aðgerða.

Leggur til að stytta 14 daga sóttkví með sýnatöku

Það sem er framundan er að takmarkanir innanlands gilda til 27. september, en Þórólfur heldur að horft sé fram á að þurfi að aflétta takmörkunum í litlum skrefum. Eins metra reglan sé mjög mikilvæg og ein sú mikilvægasta í að hefta útbreiðslu veirunnar.

Þórólfur stefnir að því að slaka á tilmælum innanlands eftir tvær til þrjár vikur ef allt gengur vel.

Þá hefur Þórólfur sent tillögur til ráðherra um að stytta 14 daga sóttkví, en gögn og rannsóknir sýna að stytta megi sóttkví með sýnatöku á sjöunda degi. Það þurfi þá að setja það í reglugerð, sem sé hlutverk heilbrigðisráðherra.

Segir Þórólfur að skynsamlegast sé að fara mjög hægt í að aflétta takmörkunum á landamærum og að ekki sé rétt að aflétta ráðstöfunum samtímis innanlands og á landamærum.

Vinna um framtíðarútfærslu á skimunum með tilliti til mismunandi hagsmuna þurfi að fara fram sem fyrst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert