Nærri níu nýjar nefndir í hverjum mánuði

Þorbjörg vísað til svara ráðuneyta við fyrirspurn Viðreisnar.
Þorbjörg vísað til svara ráðuneyta við fyrirspurn Viðreisnar. mbl.is/Árni Sæberg

Nærri því níu nýjum nefndum, starfs- og stýrihópum var komið á fót í hverjum mánuði frá því núverandi ríkisstjórn var mynduð í lok nóvember árið 2017 og fram í mars á þessu ári. Tekist var á um nytsemi þessara nefnda á Alþingi.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, vakti máls á því í umræðu um fjármálaáætlun á Alþingi í gær, að alls hefðu 248 nefndir af þessum toga verið stofnaðar á þessu tímabili. Fleiri hafa verið stofnaðar síðan.

Tölur frá því í mars

Sagðist hún þar setja spurningarmerki við ákveðna tilhneigingu ríkisstjórnarinnar, „sem hefur verið sú að setja stöðugt upp fleiri hópa, sem halda áfram að tala og greina stöðu“.

Vísaði hún til svara ráðuneytanna sem bárust í mars við fyrirspurn úr þingflokki Viðreisnar um þetta efni.

Fjöldi nefnda sem ráðherrar höfðu þá skipað var eftirfarandi:

  • Forsætisráðherra: 37
  • Félagsmálaráðherra: 34
  • Heilbrigðisráðherra: 33
  • Menntamálaráðherra: 33
  • Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra: 22
  • Umhverfisráðherra: 21
  • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra: 17
  • Fjármálaráðherra: 14
  • Iðnaðar, ferða- og nýsköpunarmálaráðherra: 13
  • Dómsmálaráðherra: 13
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar.

„Hver ætli kostnaðurinn sé?“

„Alls voru þetta 248 nefndir á kjörtímabilinu, sem eru að störfum ofan á þær nefndir sem þá þegar höfðu verið stofnaðar, og fleiri hafa verið stofnaðar síðan í mars,“ sagði Þorbjörg á þingi í gær.

„Þetta gætu þá verið um þrjú hundruð nefndir starfandi í dag. Spurningin er þá sú, hvort virkilega sé þörf á tvö hundruð og fimmtíu til þrjú hundruð nýjum nefndum á vegum ríkisstjórnarinnar, og hvort það sé þannig að þegar fjármálaráðherra talar um blóðuga sóun í opinbera kerfinu, að hann sé þá að vísa til þessa. Því hver ætli kostnaðurinn sé?“

„Vann hann fyrir kaupinu sínu?“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra steig í ræðustól og svaraði Þorbjörgu.

Sagðist hún ætla að fara yfir nokkra hópa, „og af hverju við skipum hópa“.

„Ég skipaði til að mynda nefnd um upplýsinga- og tjáningarfrelsi. Hver er afraksturinn? Jú, ný upplýsingalög, verndun uppljóstrara, skýrari reglur um tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna. Þetta var hópur. Vann hann fyrir kaupinu sínu? Já, tvímælalaust,“ sagði Katrín.

„Ég skipaði hóp, í kjölfar óveðursins, nokkurra ráðuneyta, sem fór yfir alla innviði í landinu hvað varðar raforku- og fjarskiptaöryggi,“ hélt hún áfram.

„Sá hópur lagði fram gríðarlega umfangsmikla skýrslu, með gríðarlega umfangsmiklum tillögum, um flýtingu verkefna sem er að gera það að verkum að við erum að flýta því að leggja jarðstrengi í jörð, við erum að flýta snjóflóðavörnum, við erum að endurskoða mönnun og skipulag þeirra stofnana sem annast raforku- og fjarskiptaöryggi, og við erum að endurskoða hlutverk almannavarna.

Þessi hópur hefur lokið störfum sínum. Vann hann fyrir kaupinu sínu? Já ég held það. Vill einhver lenda aftur í því sem við lentum í hér í óveðrinu í desember? Ég held ekki.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samtal ólíkra aðila skili sér

Katrín benti einnig á að hún hefði sett á laggirnar hóp til að móta stefnu um fjórðu iðnbyltinguna, sem gerði lista yfir þau verkefni sem vinna þurfi í þeim málaflokki.

„Þau eru allmörg og ég er meira að segja að fara að stofna nýjan hóp sem sprettur af því, um að móta stefnu um gervigreind fyrir íslenskt samfélag. Hverju er þetta að skila? Jú, þetta er að skila meðal annars inn í markáætlun á sviði vísinda og nýsköpunar sem miðar að því að gera íslenskt samfélag betur í stakk búið til að takast á við tæknibreytingar.

Vann þessi hópur fyrir kaupinu sínu? Já ég myndi segja það.“

Katrín sagðist trúa á það að samtal milli ólíkra aðila skili sér, og tók um leið dæmi um fleiri hópa.

Af hverju erum við að setja niður þessa hópa? Jú, það er til að ná fram framfaramálum fyrir samfélagið.“

Megnið af hópunum lokið störfum

Þorbjörg sneri aftur í ræðustól og sagði að vitaskuld héldi hún því ekki fram, að nefndir eigi ekki rétt á sér eða að þær geti ekki skilað árangri.

„Heldur það hvort hér mætti ekki aðeins huga að því hver þróunin er. Og það er áhugavert að heyra í því sambandi að það standi til að fjölga þessum hópum.“

Katrín sagðist þá geta glatt Þorbjörgu með þeirri staðreynd að megnið af þessum hópum hefði nú lokið störfum, „og skilað þeim árangri sem ég fór yfir hér áðan“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert