Vill nýta þingsalinn til að ræða sóttvarnamál

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir það „mjög gott mál“ að hún mæti á Alþingi og gefi skýrslu um ákvarðanir í tengslum við kórónuveiruna. Fyrr í dag ræddi hún við forseta Alþingis um þau mál.

„Ég myndi taka því mjög vel ef þess verður óskað,“ sagði hún í Víglínunni á Stöð 2.

Ráðherra myndi þannig fara með skýrslu til Alþingis til umræðu um þau sjónarmið sem eru lögð til grundvallar við ákvarðanatökur, til dæmis varðandi síðustu sóttvarnaákvarðanir. Einnig yrði það gert varðandi losun á hömlum.

„Þingið hefur kallað eftir því að við gerum meira í að nýta þingsalinn til að ræða þessi mál. Mér finnst það góð hugmynd.“

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Alma Möller landlæknir.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Alma Möller landlæknir. Ljósmynd/Lögreglan

„Hversu mikil veikindi viltu hafa?“

Spurð hvort aðgerðir stjórnvalda séu of harðar sagði hún alltaf um línudans að ræða. Hún sagði ekki mjög marga vera þessarar skoðunar og benti á lönd á borð við Belgíu og Holland þar sem veikindi séu orðin svo alvarleg að verið er að tala um allsherjarlokanir. Mun harðari en hér á landi. „Ég vil spyrja það fólk sem segir þetta „hversu mikil veikindi viltu hafa í samfélaginu?“ Það er það sem að losa meira myndi leiða af sér,“ sagði hún. Svandís bætti við að aðrir hafi haft samband og sagt aðgerðir íslenskra stjórnvalda allt of vægar.

Röð í skimun vegna Covid-19 við Suður­lands­braut 34.
Röð í skimun vegna Covid-19 við Suður­lands­braut 34. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samstaða í meginatriðum

Varðandi gagnrýni frá þingmönnum um að stjórnvöld séu að fórna lýðheilsu til lengri tíma með hertum aðgerðum sagði hún eðlilegt að fólk skiptist á skoðunum. Aftur á móti sagði hún að þegar öllu er á botninn hvolft og þegar stjórnvöld eru búin að komast að niðurstöðu um hvaða aðgerða á að grípa til þurfi fólk að standa saman. Hún bætti við að mikill meirihluti fólks styðji sóttvarnaaðgerðir, eða um 80 til 90%, miðað við 50% sums staðar annars staðar. „Við njótum þess enn þá að það er samstaða í samfélaginu í meginatriðum,“ sagði hún en nefndi samt að stjórnvöld finni fyrir allt annarri tilfinningu gagnvart þriðju bylgju faraldursins, heldur en í vor. Átti hún þar við svokallaða faraldursþreytu. 

Starfsfólk á Landakoti.
Starfsfólk á Landakoti. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell Þorkelsson

Mönnunarmál mikil áskorun

Svandís var einnig spurð út í smitin á Landakoti og sagðist hún treysta Landspítalanum til að fara í saumana á því sem gerðist. „Það er auðvitað stórmál þegar spítalinn er kominn á neyðarstig,“ sagði hún.

Spurð hvort ekki hafi verið hægt að hólfaskipta Landakoti vegna mönnunar sagði hún eina af stærstu áskorunum í heilbrigðiskerfinu vera mönnunarmálin. Hún sagði ekki hjálpa til að á milli tvö og þrjú hundruð heilbrigðisstarfsmenn séu í sóttkví. Ekki sé hægt að stóla á bakvarðasveitina því kannski treysti lítill hluti hennar sér til að starfa í kringum Covid-sjúklinga. Peningaleysi hjá Landspítala sé ekki skýringin, heldur snúist málið um mönnun og það hversu skæð veiran er.

Spilakössum lokað

Spurð út í gagnrýni á að hún hafi tekið orðið „spilakassar“ út úr nýjustu reglugerðinni vegna hertari takmarkana sagði hún að það hafi verið yfirsjón sem verði löguð. Spilakössum verði lokað í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert