Fólk er að verða fyrir alvarlegu tekjufalli

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Fólk er að verða fyrir mjög alvarlegu tekjufalli og í ofanálag er búið að fella krónuna um tuttugu prósent. Við munum svo sannarlega þurfa að nýta þær launahækkanir sem koma um áramótin, til þess að vega upp þá kaupmáttarrýrnun sem á sér stað í gegnum hækkandi verðlag,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.

Hvorki hann né Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, hafa orðið þess varir að atvinnurekendur fari fram á að launahækkunum um næstu áramót verði frestað. Haft var þó eftir Jóhannesi Þór Skúlasyni, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, í Morgunblaðinu um seinustu helgi, að það væri galið að ætla að halda launahækkunum til streitu. Þeim verði að fresta.

Verkalýðsformennirnir taka þetta ekki í mál. „Það væri algerlega galið að fara að reifa slíkar hugmyndir við okkur í því ástandi sem við stöndum frammi fyrir í dag. Það hafa nánast allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar gengið út á að verja fyrirtækin með lokunarstyrkjum, sértækum stuðningi, ríkisábyrgðum og svo framvegis. Það hefur ekkert verið gert fyrir fólkið, ekki nokkur skapaður hlutur, nema þá að það er búið að framlengja tekjutengdar atvinnuleysisbætur,“ segir Ragnar Þór.

Miklar erlendar vöruhækkanir

Hann segir að launamenn þurfi nauðsynlega á þessum launahækkunum að halda, ekki síst þar sem stjórnvöld hafi ekki gefið neitt út um hvernig bæta megi fólki upp það alvarlega framfærslu- og tekjufall sem margir séu að lenda í. Sá vandi geti fljótt breyst í skuldavanda af þeirri stærðargráðu sem þúsundir einstaklinga og fjölskyldna þurftu að glíma við í kjölfar hrunsins. Það hafi svo bein áhrif á neyslu í landinu ef fólk þurfi að standa frammi fyrir vali á milli þess að greiða reikninga eða kaupa brýnustu nauðsynjar, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert