Segir ráðherra freista þess að sverta orðspor

Stefán Skjaldarson sendiherra.
Stefán Skjaldarson sendiherra. Ljósmynd/Rannís

Stefán Skjaldarson, sendiherra hjá utanríkisráðuneytinu, segir að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hafi haft frammi tilhæfulausar dylgjur um að það sé hagur embættismanna sem gagnrýna frumvarp Guðlaugs að Ísland gerist aðili að ESB. Stefán segist telja að það sé í „hæsta máta óeðlilegt og óviðeigandi að ráðherra freisti þess að sverta orðspor embættismanna í sínu eigin ráðuneyti og gera þeim upp pólitískar skoðanir“.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í umsögn Stefáns um frumvarp utanríkisráðherra sem snýr að skipan sendiherra. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem umsagnir sendiherra við frumvörp komast í fjölmiðla en sendiherra Íslands í Brussel skrifaði afar gagnrýna umsögn um frumvarp Guðlaugs Þórs. Sá sendiherra var í kjölfarið kallaður heim.

Í umsögninni gagnrýnir Stefán frumvarpið harðlega en það hefur hann áður gert í fyrri umsögn. Stefán telur að frumvarpið opni enn frekar á pólitískar ráðningar þrátt fyrir að það sé ekki yfirlýst markmið frumvarpsins.

Þannig telur hann órökstutt hvers vegna fækka á  enn frekar svokölluðum fagsendiherrum miðað við fyrra frumvarp. 

„Ákvæði um þetta efni, eins og raunar frumvarpið í heild, virðast fela í sér að æðstu embættismenn utanríkisþjónustunnar, sem oftar en ekki eru einnig reyndustu og þekkingarmestu starfsmenn hennar, séu sérstök meinsemd og að þeir séu allt of margir,“ skrifar Stefán og heldur áfram:

„Einkum hefur verið látið í veðri vaka að „heimasendiherrar“ og fjöldi þeirra sé sérstakt vandamál og deild þar sem margir þeirra starfa kölluð „göngudeild“. Ætlunin virðist, samkvæmt frumvarpinu, að „lækna“ þetta mein með því að fækka í þessum hópi og skipa í þeirra stað sendiherra án auglýsingar á grundvelli illa skilgreindra lágmarkshæfniskrafna eða veita, án skipunar í embætti, reynsluminna fólki í utanríkisþjónustunni sendiherratitil.“

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Heimasendiherrum“ á „göngudeild“ fækkar ekki

Stefán fullyrðir að undanfarin tvö ár hafi utanríkisráðherra veitt sjö starfsmönnum, sem ekki eru skipaðir sendiherrar, titil sendiherra við störf þeirra erlendis. Þetta hafi Guðlaugur gert þrátt fyrir yfirlýsingar um að hann hafi ekki skipað nýja sendiherra. 

„Af sjö skrifstofustjórum í ráðuneyti eru tveir sendiherrar, fjórir aðrir eru embættismenn (þrír skipaðir sendifulltrúar og einn skipaður skrifstofustjóri) og einn tímabundið settur skrifstofustjóri sem ekki er embættismaður. „Heimasendiherrum“ á „göngudeild“ fækkar ekki við svona aðstæður,“ skrifar Stefán. 

Þá segir hann að í frumvarpinu sé gerð tilraun til að láta líta út fyrir að gerðar verði menntunar- eða reynslukröfur varðandi alþjóða- og utanríkismál til sendiherra sem verða skipaðir tímabundið án auglýsingar. 

„Raunin er þó, samkvæmt frumvarpinu, að einnig má skipa aðila með „sértæka reynslu sem nýtist í embætti“. Þetta þýðir á mannamáli að hægt er að skipa hvern sem er í slíkt embætti ef vilji er til.“

Erfitt fyrir embættismenn að veita umsögn

Í umsögninni kemur fram að Stefán telji að hæfnisnefnd sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu kunni að vera gagnslaus þar sem ráðherra geti skipað sendiherra án hennar.  

„Ólíklegt er að slík hæfisnefnd geri athugasemdir við skipun einstaklings sem ráðherra vill skipa án auglýsingar á grundvelli starfslýsingar eða erindisbréfs sem ráðherra hefur gert.“

Stefán segir að ekki sé hægt að túlka það að fáar umsagnir hafi borist um frumvarpið sem ánægju með það enda setji það embættismenn í erfiða stöðu að gefa umsögn um frumvarp síns ráðherra, sérstaklega ef þær eru neikvæðar. 

Þá fer Stefán inn á málflutning ráðherra um frumvarpið. Stefán segir að sá málflutningur hafi verið til þess fallinn að vega að starfsheiðri og fagmennsku embættismanna Guðlaugs og að gefið hafi verið í skyn að þeim sé ekki treystandi. 

„Kannski kristallast í svona málflutningi og þessari lagasmíð mergurinn málsins, hugmyndin um að embættismenn séu pólitískt skipaðir og þar af leiðandi aðeins treystandi ef viðkomandi ráðherra hefur sjálfur valið þá til ábyrgðarstarfa.“

Umsögn Stefáns í heild sinni

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert