Frekari hrókeringar í utanríkisþjónustunni

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur gert breytingar á staðsetningu ýmissa …
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur gert breytingar á staðsetningu ýmissa sendiherra undanfarið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, hefur ákveðið nokkra flutninga forstöðumanna sendiskrifstofa í utanríkisþjónustunni. Ákvarðanirnar voru tilkynntar viðkomandi aðilum 11. mars.

Um er að ræða breytingar á fimm sendiskrifstofum. Þær fela ekki í sér skipun nýrra sendiherra heldur er eingöngu um flutninga núverandi sendiherra og sendifulltrúa að ræða.

Gunnar Pálsson sendiherra átti að fara til Indlands frá Brussel, …
Gunnar Pálsson sendiherra átti að fara til Indlands frá Brussel, en fer þess í stað heim til Íslands.


Kristján Andri Stefánsson, sem gegnt hefur stöðu sendiherra Íslands í París, verður sendiherra í Brussel og Gunnar Pálsson, sem gegnt hefur stöðu sendiherra þar, kemur til starfa í ráðuneytinu á Íslandi.

Eins og kemur fram í grein á mbl.is, átti fyrst að senda Gunnar til Indlands með styttri fyrirvara en venjan er, og Gunnar tók fyrir það. Ráðherra ítrekaði beiðni sína um að Gunnar færi til Indlands og flýtti tímapunkti flutningsins fram í júní í stað september. Það gekk heldur ekki eftir og að lokum var Gunnar kallaður heim. Gunnar var sendiherra í Indlandi 2007 og 2008.

Fleiri flutningar sendiherra

Til viðbótar við ofangreint verður Unnur Orradóttir, sem gegnt hefur stöðu sendiherra Íslands í Kampala, sendiherra í París, og tekur Þórdís Sigurðardóttir sendifulltrúi við af Unni sem forstöðumaður sendiráðsins í Kampala.

Guðmundur Árni Stefánsson, sem gegnt hefur stöðu sendiherra Íslands í Nýju-Delí, verður aðalræðismaður Íslands í Winnipeg. Tilkynnt verður um hver tekur við forstöðu í Nýju-Delí síðar.

Áður hafði verið tilkynnt um flutninga sem varða sendiráðin í Moskvu, Helsinki og Stokkhólmi. 

Venju samkvæmt eru breytingar á skipan forstöðumanna sendiskrifstofa tilkynntar með fyrirvara um samþykki viðkomandi gistiríkis. Almennt er miðað við að framangreindar breytingar taki gildi 1. júlí en allir flutningar í utanríkisþjónustunni sumarið 2020 verða framkvæmdir með hliðsjón af aðstæðum sem fyrir hendi eru í gistiríkjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert