„Aumur plástur á stórt, blæðandi sár“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þingmaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert

„Mér skilst að fyrir fjárlaganefnd liggi minnisblað frá hæstvirtum heilbrigðisráðherra þess efnis að það eigi að setja um 100 milljónir á árinu 2021 í fjármögnun nýrra laga um aukið aðgengi að sálfræðiþjónustu í samræmi við þau lög sem voru samþykkt hér einróma. Ég spyr einfaldlega, virðulegi forseti: Hvers konar sýndarmennska er þetta? Hvaða leikþátt er verið að setja upp?“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þingmaður Viðreisnar í umræðum um störf þingsins í dag. 

Þar gagnrýndi hún að einungis brot af því fjármagni sem þarf til að koma sálfræðiþjónustu almennilega undir Sjúkratryggingar Íslands, eins og samþykkt var á Alþingi fyrr á þessu ári, fyrir tilstuðlan frumvarps sem Þorgerður Katrín var fyrsti flutningsmaður að. 

„Það er ljóst að ríkisstjórnin ætlar núna ekki að setja það fjármagn sem þarf til í málið. Þetta er metnaðarleysi, þetta lýsir lítilli framtíðarsýn og er í engu samræmi við mjög ríkan og skýran vilja þingsins,“ sagði Þorgerður Katrín. 

Leggja til að 1,3 milljarðar verði settur í málið

Hún benti á að andleg vanlíðan hafi aukist að undanförnu vegna kórónuveirufaraldursins. 

„Á sama tíma heyrum við nístandi ákall úr samfélaginu um aukna áherslu á geðheilbrigði og líðan þjóðar. 30.092 einstaklingar skrifuðu undir áskorun Geðhjálpar um að geðheilbrigðismál verði sett í forgang í íslensku samfélagi. Forsvarsfólk stúdentahreyfinga hafa vakið athygli á gríðarlega alvarlegri stöðu hjá unga fólkinu okkar. Auk þess vitum við að heimsfaraldurinn hefur haft mjög neikvæðar afleiðingar á líðan fólks, einmanaleika og geðheilbrigði. Það hlýtur að vera hluti af viðspyrnu þjóðar að gera betur hér og taka stærri skref,“ sagði Þorgerður Katrín. 

Hún telur að milljónirnar hundrað séu „aumur plástur á stórt, blæðandi sár“.

„Því að þörfin eftir þessari þjónustu er æpandi í samfélaginu okkar. Þetta er nöturleg forgangsröðun ríkisstjórnar. Á sama tíma og hún setur milljarða í alls kyns gæluverkefni á þessum tímum setur hún ekki eyri í viðbótarfjármagn í þetta mikilvæga mál þar sem tekið er utan um fólk og líðan þess.

Viðreisn mun leggja til að 1,3 milljarðar verði settir í málið við afgreiðslu fjárlaga. Fjárveitingavaldið, Alþingi, hefur enn þá tækifæri til að gera betur og tryggja fjármagn í málið. Ég vil skora á þingmenn að leggja niður flokkslínur og sýna aftur samtakamátt og sigla málinu í höfn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert