Þórólfur: Vonandi sér Pfizer kosti Íslands

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Almannavarnir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist vonast til þess að lyfjaframleiðandinn Pfizer sjái kostina í því að bjóða upp á fleiri skammta af bóluefni fyrirtækisins fyrir Íslendinga. Væri þar með hægt að bólusetja þjóðina fyrr en ella, en á móti fælist í þessu rannsóknarefni þar sem nánari upplýsingar myndu fást um þróun faraldursins eftir bólusetningu og með afléttingum samkomutakmarkana. Þá myndi einnig vera hægt að fylgjast nánar með mögulegum aukaverkunum.

Er þetta hluti af viðræðum yfirvalda hér á landi og Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, við forsvarsmenn Pfizer.

Greint var frá því fyrir jól að Kári gerði sér vonir um allt að 400 þúsund skammta frá fyrirtækinu, en hann fundaði með fulltrúum Pfizer ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Í kjölfarið átti Kári í viðræðum við fyrirtækið.

„Alltaf einhver samskipti í gangi

Þórólfur segir þessar viðræður enn ekki komnar langt áleiðis og að ekki hafi mikil samskipti verið yfir jólin. „Það eru samt alltaf einhver samskipti í gangi, menn að skiptast á upplýsingum,“ segir hann við mbl.is.

Spurður um forræði verkefnisins segir hann að samkvæmt lögum séu bólusetningar á forræði sóttvarnalæknis og undir heilbrigðisráðuneytinu. Segist hann fastlega gera ráð fyrir að það verði áfram þótt skipulag og útfærsla, ef af verður, sé í skoðun. „Ef farið er í stærri aðgerðir þurfa fleiri að koma að því,“ segir hann.

Eins og Morgunblaðið greindi frá á aðfangadag er hugmyndin að Ísland geti orðið rannsóknarsetur fyrir fasa IV rannsókn, en þar væri stærsti hluti þjóðarinnar bólusettur á stuttum tíma. Áður hafði Þórólfur viðrað þessa hugmynd í pósti til fulltrúa Pfizer 15. desember.

„Við höfum alla burði til að gera þetta hér“

„Ég vona að þeir sjái kostina í að gera slíka fasa IV rannsókn,“ segir Þórólfur. „Við höfum alla burði til að gera þetta hér. Við erum að gera þetta alla daga og fylgjumst með öllum þeim sem greinast,“ segir hann og bætir við að meðal röksemda sinna í bréfinu til Pfizer hafi einmitt verið að hér á landi væru mjög ákjósanlegar aðstæður til að fara í rannsókn sem þessa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert