Hugmyndin ekki frá Kára komin

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Lögreglan

Sóttvarnalæknir segir það ekki rétt sem haft var eftir Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, að hugmyndin að rannsóknarsetri fyrir áframhaldandi virkni og verkun bóluefnis Pfizer BioNTeck sé frá honum komin.

„Kári Stefánsson hefur á hinn bóginn verið ötull með samskiptum sínum við forsvarsmenn Pfizer við að ljá málinu brautargengi,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í tilkynningu. Hann segir óljóst hvort af þessari rannsókn verður, en beðið er svara frá Pfizer.

„Hugmyndin að því að Ísland gæti orðið rannsóknarsetur fyrir fasa IV rannsókn þar sem stærsti hluti þjóðarinnar yrði bólusettur á stuttum tíma var viðruð í tölvupósti sóttvarnalæknis til fulltrúa Pfizer þ. 15. desember sl. Innihald póstsins hefur síðan verið til skoðunar innan fyrirtækisins og verið leitað eftir frekari upplýsingum hjá sóttvarnalækni,“ bætir hann við.

mbl.is

Bloggað um fréttina