Ungliðahreyfingar leggjast gegn Bjarna

Ungliðahreyfingar gagnrýna Bjarna Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, vegna veru hans …
Ungliðahreyfingar gagnrýna Bjarna Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, vegna veru hans í Ásmundarsal þar sem of margir voru komnir saman. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ungir jafnaðarmenn hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir hvetja Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Sigurð Inga Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra til að slíta stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og leita eftir stuðningi „ábyrgra stjórnarandstöðuflokka“ við minnihlutastjórn fram að næstu alþingiskosningum. 

Ragna Sigurðardóttir, forseti UJ.
Ragna Sigurðardóttir, forseti UJ. Ljósmynd/Hari

Þar að auki er gerð krafa um að kosningum verði flýtt og þær haldnar næsta vor en tilefni yfirlýsingarinnar er vera Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra í Ásmundarsal á Þorláksmessu, þar sem lögreglan vísaði fólki á dyr þar sem fjöldatakmörk voru ekki virt.

„Á undanförnum mánuðum hafa þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins grafið markvisst undan sóttvarnareglum og trúverðugleika þeirra, annars vegar með því að virða sjálfir reglurnar að vettugi og hins vegar með órökstuddum og illa fram settum áróðri gegn sóttvarnaráðstöfunum.

Brot Bjarna Benediktssonar á sóttvarnalögum í aðdraganda jóla er enn ein staðfesting þess að Sjálfstæðisflokknum er ekki treystandi til að koma nálægt landstjórninni á tímum mannskæðs heimsfaraldurs,“ segir í yfirlýsingu Ungra jafnaðarmanna.

Ungir framsóknarmenn vilja Bjarna burt

Samband ungra framsóknarmanna hefur einnig lagt orð í belg vegna veru ráðherra í Ásmundarsal á Þorláksmessu. Í twitterfærslu sem SUF birti í kvöld, til sjálfstæðismanna, eru þeir hvattir til að fylgja ekki formanni sínum í einu og öllu. Stundum gangi þeir of langt og „þá geti verið gott að skipta“.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert