Raunveruleikinn eins og hann er í dag

Netárásir eru hluti af raunveruleikanum í dag að sögn Guðmundar …
Netárásir eru hluti af raunveruleikanum í dag að sögn Guðmundar Jóhannssonar. AFP

„Þetta er raunveruleikinn eins og hann er í dag. Svona gerist, þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta er reynt og ekki í síðasta skipti sem þetta verður reynt,“ segir Guðmundur Jóhannsson, samskiptafulltrúi Símans, um netárás sem gerð var á fyrirtækið.

„Hún var náttúrulega stór en flækjustigið við þessa árás var kannski að hún var dreifð,“ segir Guðmundur.

Árás sem var gerð á netkerfi Símans á laugardag var svokölluð DDoS-árás, sem kallast á íslensku dreifð álagsárás, og átti upptök sín utan landsteinanna. Eðli slíkrar árásar er að hún kemur frá mörgum stöðum samtímis:

„Þá eru sem sagt þessir óprúttnu aðilar með dálítið sem kallast yrkjanet á íslensku. Þá eru kannski þúsundir tölva sem þeir hafa vald yfir og eru sýktar af vírusi,“ segir hann, en tölvurnar senda skilaboð um að beina netumferð á ákveðinn stað.

Guðmundur Jóhannsson, upplýsingafulltrúi Símans.
Guðmundur Jóhannsson, upplýsingafulltrúi Símans. Ljósmynd/Aðsend

„Árásin var mjög dreifð, þar sem hún vísaði á margar IP-tölur og það tók tíma að ná utan um hana,“ segir hann en aðalatriðið hafi verið að gæta þess að árásin næði ekki til sæstrengja. Þá næði hún að raska allri netumferð út úr landinu.

Árásaraðilar beiti stundum fjárkúgun

„Þegar það kemur svona mikið högg á kerfið, þá er umferðinni dreift í svokallað svarthol svo að hún hverfi og deyi þar, þannig að hún hafi ekki áhrif á kerfið okkar. Okkar keppikefli er að stöðva svona árásir áður en þær ná í sæstrenginn, því annars fer hún að trufla alla netumferð á Íslandi. Það viljum við náttúrulega ekki,“ segir hann og heldur áfram:

„Það heppnaðist alveg. Það var allt í lagi með allt fyrir utan þessar truflanir á sjónvarpsþjónustunni. Þessi árás hafði engin áhrif á önnur fjarskipti eða önnur kerfi hjá Símanum,“ segir hann. Tilgangur árásanna er óljós en dæmi eru um að fyrirtæki sem verða fyrir þeim verði krafin um tilteknar upphæðir, vilji þau að árásunum linni, að sögn Guðmundar.

„Það var ekki raunin núna en það getur alltaf gerst,“ segir Guðmundur. CERT-IS, netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar, hefur verið tilkynnt um árásina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert