Eitt smit innanlands – var utan sóttkvíar

Covid-19 faraldurinn er í rénum á Íslandi ólíkt því sem …
Covid-19 faraldurinn er í rénum á Íslandi ólíkt því sem er víðast hvar annars staðar í Evrópu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eitt kórónuveirusmit greindist innanlands í gær. Þetta er fyrsta smitið utan sóttkvíar á Íslandi síðan 20. janúar. Eitt smit er í mótefnamælingu á landamærunum síðan í gær en enginn greindist í fyrri eða síðari sýnatöku þar í gær.  Alls er 21 í sóttkví og 40 eru í einangrun. 

Alls voru tekin 1.333 sýni innanlands í gær og 244 á landamærunum. Nú eru 899 í skimunarsóttkví. Nýgengi innanlandssmita er 5,5 og sama á landamærunum. Miðað er við á hverja 100 þúsund íbúa síðustu tvær vikur.

Tölur yfir smit á landamærunum frá sunnudegi hafa verið uppfærðar en tveir greindust í fyrri sýnatöku með virkt smit og einn í þeirri síðari. Sex voru með mótefni en enn er beðið niðurstöðu mótefnamælingar í tveimur tilvikum.

Engar breytingar urðu á fjölda þeirra sem eru í einangrun á höfuðborgarsvæðinu á milli daga en þeir eru 33 talsins. 13 eru í sóttkví þar. Á Suðurnesjum eru fjögur virk smit en fimm í sóttkví og á Suðurlandi eru tveir í einangrun en enginn í sóttkví. Á Vesturlandi er eitt virkt smit í Borgarnesi og einn í sóttkví. Á Norðurlandi eystra er einn í sóttkví. 

Einn hefur bæst í hóp smitaðra á fimmtugsaldri og eru þeir nú fjórir. Enginn eldri en 69 er með Covid-19 á landinu og engir unglingar en ekkert virkt smit hefur verið meðan fólks á aldrinum 13-17 ára í tæpa viku.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert