Þurfi að finna lausn fyrir 500 manns

Læknar að störfum. Mynd úr safni.
Læknar að störfum. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er gríðarlega mikilvægt mál og er í algjörum forgangi hjá okkur,“ segir Berglind Bergmann, formaður félags almennra lækna, um breytingar á tilhögun læknanáms og kandidatsárs í Noregi og Svíþjóð sem hafa mikil áhrif á að minnsta kosti 500 almenna lækna á Íslandi sem huga að sérnámi þar.

Nú þegar eru íslenskir sérnámslæknar sem stunda sér­nám í Nor­egi að sjá fram á að þurfa að end­ur­taka kandí­dats­árið sitt vegna breyt­inga á skipu­lagi lækn­a­náms þar í landi.

Skipu­lagi náms í lækn­is­fræði í Nor­egi var breytt árið 2019 þannig að lækna­nem­ar fá nú fullt lækn­inga­leyfi eft­ir sex ára há­skóla­nám. Sér­námið hefst svo á átján mánuðum af því sem sam­bæri­legt er ís­lensku kandí­dats­ári. Áður höfðu norsk­ir lækna­nem­ar fengið lækninga­leyfi sitt eft­ir sex ára nám og átján mánaða „turn­us“, sem var talið sam­bæri­legt ís­lensku kandí­dats­ári. Því komust lækna­nem­ar frá Íslandi beint inn í sér­námið, án þess að þurfa að end­ur­taka kandí­dats­árið eins þeir þurfa nú að gera.

Útlit er fyr­ir að sama staða komi upp fyr­ir ís­lenska sér­náms­lækna í Svíþjóð inn­an tíðar.

„Það hefur tekið tíma til að fá stjórnvöld til að bregðast við þessu en það er komið í fullan gang núna. Heilbrigðisráðuneytið skipaði vinnuhóp sem vinnur að þessum málum,“ segir Berglind og bendir á að fyrrverandi formaður félags almennra lækna sitji í hópnum.

Eins og staðan er því núna þurfa sérnámslæknar í Noregi, og fljótlega Svíþjóð, að end­ur­taka kandí­dats­árið og seinka því þannig að hefja sinn starfs­fer­il. Berglind segir að unnið sé að því hvernig þessu verði breytt.

Berglind Bergmann.
Berglind Bergmann. Ljósmynd/Aðsend


„Mér skilst að það verði einhverjar breytingar á þá leið að læknanemar sem læra hér á landi útskrifast með lækningaleyfi. Þeir myndu því taka íslenskt kandídatsár með lækningaleyfi sem mögulega fengist metið,“ segir Berglind.

„Það verður væntanlega ekki hægt að breyta þessu fyrir þá sem eru á sjötta ári núna, það er fimmtíu manna hópur og svo eru rúmlega 400 manns í félaginu sem flestir hafa tekið kandídatsár hér á landi án þess að hafa fullt lækningaleyfi,“ segir Berglind.

Það þurfi að finna lausn fyrir allt að 500 manna hóp sem fyrst, að mati Berglindar.

Á næstunni verður fræðslukvöld fyrir félagsfólk þar sem nánar verður farið yfir málin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert