Afkoma ríkissjóðs versnaði verulega

Tekjujöfnuður hins opinbera var neikvæður um 215 milljarða króna í …
Tekjujöfnuður hins opinbera var neikvæður um 215 milljarða króna í fyrra. mbl.is/Golli

Tekjujöfnuður hins opinbera var neikvæður um 215 milljarða króna á árinu 2020 samanborið við rúmlega 46 milljarða halla árið 2019.

Afkoma ríkissjóðs er sýnu verri en hjá sveitarfélögunum, eða -22,5% af tekjum samanborið við -4,4% hjá sveitarfélögunum. Fjárfestingar bæði ríkissjóðs og sveitarfélaganna voru í hámarki á árinu 2018 en hafa minnkað síðan, einkum hjá sveitarfélögunum, að því er segir í Hagsjá Landsbankans.

Afkoma ríkissjóðs versnaði verulega á síðasta ári, fór úr -3,5% af tekjum árið 2019 niður í -22,5% af tekjum. Afkoma sveitarfélaganna hefur hins vegar breyst tiltölulega lítið síðustu þrjú ár, verið neikvæð um 4-5% af tekjum. Tekjur ríkissjóðs á föstu verðlagi drógust saman um 7,4% milli 2019 og 2020 á meðan tekjur sveitarfélaganna jukust um 2,4% milli ára.

Þessi staða ríkissjóðs er ekki alveg ný en halli hefur verið á rekstri ríkissjóðs allt frá upphafi ársins 2019. Það sama gildir um sveitarfélögin sem heilt yfir hafa verið rekin með halla mun lengur.

Halli ríkissjóðs jókst hins vegar verulega 2020. Hallinn á ríkissjóði á árinu 2019 var að meðaltali 3,5% af tekjum, en var svo 24% á fyrsta ársfjórðungi 2020 og 34,5% af tekjum á öðrum, 19,7% á þeim þriðja og 14,4% á þeim fjórða.

Útgjöld ríkissjóðs jukust um 10%

Útgjöld ríkissjóðs og sveitarfélaganna breyttust með álíka hætti á árinu 2019, jukust um tæp 4% á föstu verðlagi. Útgjöld ríkissjóðs jukust hins vegar um 10% í fyrra á meðan útgjöld sveitarfélaganna jukust um 5,4%. Það er því ljóst að veirufaraldurinn hefur reynst ríkissjóði mun þyngri í skauti en sveitarfélögunum.

Opinber fjárfesting dróst saman um 9,3% að raunvirði á árinu 2020. Þetta er annað árið í röð sem opinber fjárfesting minnkar, en samdrátturinn var 10,8% á árinu 2019.

Opinber fjárfesting var einungis 3,5% af vergri landsframleiðslu í fyrra, en hún hefur að meðaltali verið um 3,9% af VLF frá árinu 2001. Þessi niðurstaða kemur á óvart í ljósi bæði yfirlýsinga stjórnvalda og samþykktra heimilda, segir í Hagsjánni.

Frá árinu 2010 hafa fjárfestingar ríkissjóðs verið að meðaltali 47 ma.kr. á ári á verðlagi ársins 2020. Fjárfestingar sveitarfélaganna hafa á sama tíma verið um 30 milljarðar króna að meðaltali, eða rúmlega 60% af fjárfestingum ríkissjóðs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert