Þingflokkur VG fordæmir „valdníðslu“

Eldflaugar lýsa upp næturhimininn á Gaza-svæðinu.
Eldflaugar lýsa upp næturhimininn á Gaza-svæðinu. AFP

Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fordæmir stöðu mála á Gaza-svæðinu í yfirlýsingu sem hefur verið send fjölmiðlum.

Þar kemur fram að flokkurinn „fordæmir valdníðslu, margendurteknar landtökur og brottvísanir palestínskra heimamanna úr byggðum sem svo eru eyðilagðar og lagðar undir ísraelska landtökumenn. Þær eru gróf brot á alþjóðasamningum, alþjóðalögum og mannréttindum“, segir í yfirlýsingunni.

„Þá eru harkaleg viðbrögð Ísraelsstjórnar við eldflaugaskotum af Gaza-strönd til Ísraels, loftárásir með fullkomnum vopnum (eða mannlausum drápstækjum) á ofurþéttbýl svæði Palestínumanna, óverjandi. Lögregluaðgerðir ísraelskra yfirvalda gegn mótmælendum í Jerúsalem eru einnig óverjandi,“ segir þar einnig.

Fram kemur að VG hafi ávallt lagt áherslu á nauðsyn þess að leita friðsamlegra lausna í deilunni fyrir botni Miðjarðarhafs. Aldrei komist á raunverulegur friður með vopnavaldi og kúgun. Mikilvægt sé að standa vörð um alþjóðalög og brjóta ekki á mannréttindum íbúa svæðisins.

Einnig minnir flokkurinn á samþykkt Alþingis frá 2011 um viðurkenningu á sjálfstæði og fullveldi Palestínu og þar með rétt íbúanna til eigin ríkis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert