Reykjavík í 16. sæti yfir loftgæði

Auður Anna Magnúsdóttir.
Auður Anna Magnúsdóttir. Ljósmynd/Landvernd

Í tölum Umhverfisstofnunar Evrópu er Reykjavík í 16. sæti evrópskra borga yfir hrein loftgæði. „Ég get ekki sagt að það komi okkur neitt sérstaklega á óvart, ég hélt jafnvel að við værum neðar,“ segir Auður Önnu Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Landverndar um það.

Samtökin vilja að tekið verði gjald fyrir notkun nagladekkja á höfuðborgarsvæðinu. Ályktun þess efnis var samþykkt á aðalfundi Landverndar í vikunni. Að sögn Auðar eru nagladekkin ein helsta ástæða svifryksmengunar og skorar Landvernd því á sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu að taka upp gjaldskyldu fyrir nagladekk.

Hún segir að nagladekkin séu langverst þegar loftgæði eru annars vegar en þó hafi einnig aðrir þættir svo sem útblástur áhrif. Þá nefnir Auður að því þyngri sem bílarnir séu því meira svifryk komi frá þeim.

Ísland eftir á

Í efstu sætum lista umhverfisstofnunarinnar yfir loftgæði eru borgir frá Skandinavíu, Finnlandi og Eistlandi en efst trónir Umeå í Svíþjóð. Auður segir að þessi lönd séu komin mun lengra en Íslendingar í aðgerðum varðandi nagladekk. „Þau hafa nefnilega tekið sig á. Það sem Landvernd er að leggja til er byggt á fyrirmynd frá Noregi, í Osló til dæmis er gjaldskylda þar sem er meðal annars hægt að kaupa sér daggjald. Þannig að þeir sem eru að koma langt að, fara yfir heiðar og slíkt, geta verið á nöglum í borginni gegn gjaldi,“ segir Auður og bætir við að þetta sé klárlega lausnin.

70 dauðsföll vegna mengunar

Í ályktun Landverndar kemur fram að bílum á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað undanfarin ár, ekki síst vegna aukins fjölda ferðamanna. Frá 1. september árið 2020 til 1. apríl 2021 fór mengun yfir viðmiðunarmörk við Grensásveg í Reykjavík 52 daga af 242. Samkvæmt ábendingu frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur vísa viðmiðunarmörkin til klukkustundargilda og því ekki endilega átt við sólarhringsgildi.

Í ályktun Landverndar segir: „Þessi lausn [að setja á gjaldskyldu fyrir nagladekk] myndi auka til muna gæði andrúmslofts í Reykjavík, og minnka þar með ótímabundin dauðsföll vegna svifryksmengunar, og vonandi koma í veg fyrir það að farið verði yfir viðmiðunarmörk.“ Ályktunin segir rót vandans hvað viðkemur svifryksmengun vera nagladekk og tímatakmarkanir á notkun þeirra hafi ekki skilað sér í minni notkun.

Þar segir enn fremur að samkvæmt skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu megi rekja 70 dauðsföll á Íslandi á ári til svifryksmengunar. Til hliðsjónar deyja fimm til 15 einstaklingar á ári í umferðarslysum samkvæmt Samgöngustofu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert