Vill hraunbrú yfir Suðurstrandarveg

Hraun hefur flætt víða við eldgosið í Geldingadölum.
Hraun hefur flætt víða við eldgosið í Geldingadölum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Lausnin miðar að því að bjarga Suðurstrandarvegi,“ segir Magnús Rannver Rafnsson, verkfræðingur og framkvæmdastjóri Línudans ehf., en hann leggur til að lögð verði nokkurs konar hraunbrú yfir Suðurstrandarveg til þess að flytja hraun sem stefnir að veginum yfir hann og áfram út í sjó.

Magnús segir tillöguna liggja á borði almannavarna og vonast hann að heyra betur frá þeim í komandi viku.

Magnús Rannver Rafnsson verkfræðingur.
Magnús Rannver Rafnsson verkfræðingur.

„Það er að myndast samstarfshópur um verkefnið sem Verkfræðistofa Suðurnesja er hluti af. Línudans ehf. leiðir þetta verkefni,“ segir Magnús og bætir við að tíminn sé af skornum skammti og því þurfi að hafa hraðar hendur.

„Þá er hann úr leik“

„Um leið og hraun fer yfir veginn þá er nánast ómögulegt að vinna með þessa hugmynd,“ segir Magnús og bætir við að þetta sé í raun eina örugga lausnin til þess að verja veginn. Hann segir að hingað til hafi hraunflæðið ekki verið tekið nægilega föstum tökum.

„Það hefur verið ákveðin óákveðni og bras í mönnum um hvað eigi að gera.“

Magnús segir að hann hafi byrjað að skoða málið þegar ákvörðun var tekin um að láta hraun flæða óáreitt yfir veginn.

„Mér finnst það hins vegar ekki þurfa og almennt eigi að vernda samgönguæðar sem kosta marga milljarða. Um leið og hraunið fer yfir veginn þá er hann úr leik og þá er bara ein leið út úr Grindavík.“

Hraunbrúin myndi liggja yfir Suðurstrandarveg.
Hraunbrúin myndi liggja yfir Suðurstrandarveg. Teikning/Línudans

Ver veginn á meðan hraun flæðir

„Ef hraunið vill fara yfir veginn þá fer það yfir brúna,“ segir Magnús og bendir á að til þess þurfi að stýra hrauninu upp að einhverju marki. Hann segir þessa lausn hins vegar hafa marga kosti sem hægt sé að ganga út frá að komi til með að virka.

Hægt verði að halda Suðurstrandarvegi opnum með tiltölulega tryggum hætti, á meðan hraun flæðir, jafnvel þótt eldgos vari í mörg ár.

„Mér finnst mjög mikilvægt að yfirvöld taki þetta alvarlega og skoði þessa tillögu. Mitt mat er að þetta gæti gengið upp tiltölulega auðveldlega. Við þurfum að eiga einhverja svona lausn á þessari eldfjallaeyju sem við búum á.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert