Delta-afbrigðið leggst harðar á börn

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Delta-afbrigðið leggst harðar á börn en fyrri afbrigði kórónuveirunnar og þurfa fleiri börn, sem smitast af Delta-afbrigðinu, að leggjast inn á spítala. Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að erlendar rannsóknir sýni fram á. 

„Það eru varúðarráðstafanir frá sóttvarnastofnun Bandaríkjanna akkúrat um þetta málefni, þar sem segir að það sé aukinn fjöldi barna sem þarf að leggjast inn á spítala eða veikist alvarlega af Delta-afbrigðinu.“

Stjórnvöld þurfi að taka afstöðu til tillagna um langtímafyrirkomulag

Hann segir einnig að hann geti ekki tjáð sig um hvort honum þyki raunhæft að tillögur hans um langtímaaðgerðir í baráttunni gegn faraldrinum verði að veruleika. Það sé fyrir stjórnvöld að svara.

Í gær var birt minnisblað sóttvarnalæknis til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, þar sem líkur eru leiddar að því að mögulega þurfi Íslendingar að búa við e.k. sóttvarnaaðgerðir í fleiri mánuði og jafnvel ár.

„Menn þurfa auðvitað að taka bara beinskeytta ákvörðun um hvernig þessi mál eigi að vera. Og þetta eru svona þessi grundvallarsjónarmið í sóttvörnum sem ég hef lagt til grundvallar þessarar umræðu og ákvarðanatöku sem menn þurfa bara virkilega að ræða – á þetta að vera svona eða hinsegin?“ segir Þórólfur við mbl.is.

„Og ég ætla svosem ekkert að tjá mig um hvort það sé raunhæft að efni þessa minnisblaðs verði að veruleika, það er bara eitthvað sem stjórnvöld verða að ákveða. Þetta eru þeir punktar og þau atriði sem menn þurfa að taka beinharða afstöðu til, hvort hlutirnir eigi að vera í þessum eða hinum farveginum út frá sóttvarnasjónarmiðum.“

Ákalli um fyrirsjáanleika svarað

Þórólfur segir að kallað hafi verið eftir fyrirsjáanleika í tilhögun sóttvarnaaðgerða og langtíma-minnisblaðið, sem hann sendi heilbrigðisráðherra þann 11. ágúst og birtist í gær, sé tilraun til þess að stuðla að einmitt því, fyrirsjáanleika. 

„Það hefur verið kallað eftir fyrirsjáanleika og það hefur verið kallað eftir því að minnka eins og hægt er þessar sífelldu herðingar og tilslakanir og þetta er kannski innlegg í þá umræðu, þá að hafa hlutina einhvern veginn stabíla. Ég held við verðum aldrei laus við einhverjar sóttvarnaráðstafanir á meðan þessi veira er í gangi.“ 

Tónaflóð Rásar 2 á menningarnótt 2019.
Tónaflóð Rásar 2 á menningarnótt 2019. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spurður um hinar ýmsu útfærslur samkomutakmarkana segir Þórólfur að samkomutakmarkanir geti ekki hætt að gera gagn, sama hversu rúmar þær eru. 

Geta samkomutakmarkanir hætt að virka ef þær eru of rúmar og þá jafnvel hægt að sleppa þeim? Ef takmarkanir miða kannski við þúsund eða 5 þúsund manns, getur það hreinlega hætt að bera árangur?

„Nei, maður getur ekki sagt neitt til um það. Það má í raun bara segja að því rýmri sem takmarkanirnar eru, það er að segja því fleiri sem koma saman, því meiri líkur eru á að smit dreifist. Það eru í raun engin skil í því, maður getur ekki sagt að fyrir ofan eða neðan einhverja tölu séu takmarkanirnar hættar að virka, það er ekki alveg þannig.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert