Engin grímuskylda í Krónunni

Í tilkynningunni segir að fólki sé auðvitað heimilt að bera …
Í tilkynningunni segir að fólki sé auðvitað heimilt að bera grímur áfram. Ljósmynd/Aðsend

Frá og með morgundeginum, 1. september, mun Krónan afnema grímuskyldu í verslunum sínum, en hún var sett á í lok júlímánaðar.

Frá þessu greinir fyrirtækið í tilkynningu.

Segir þar að viðskiptavinir og starfsfólk séu sem fyrr beðin um að huga ávallt að gildandi fjarlægðartakmörkum, sem nú nema einum metra, og hvött til að nýta sér sótthreinsispritt sem sé að finna víða í verslununum.

Öllum sé einnig að sjálfsögðu áfram velkomið að bera grímur.

Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar.
Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar. Ljósmynd/Aðsend

Meiri óvissa fyrr í sumar

Að sögn Ástu Sigríðar Fjeldsted, framkvæmdastjóra Krónunnar, mun starfsfólk sjá til þess að hugað sé að sóttvörnum í hvívetna.

„Grímuskyldu var komið á í sumar þegar meiri óvissa ríkti í samfélaginu varðandi útbreiðslu Covid. Nú teljum við að viðskiptavinir og starfsfólk okkar sé orðið þaulvant að meta sjálft hvenær þörf sé á grímu og hvenær ekki – og að eins metra fjarlægðartakmörk sé auðvelt að virða í okkar verslunarrýmum,“ er haft eftir Ástu.

„Áfram verður lögð mikil áhersla á annars konar sóttvarnir í okkar verslunum svo sem aukin þrif og notkun sótthreinsispritts á milli afgreiðslna. Við hvetjum að sjálfsögðu enn til grímunotkunar en leggjum það í hendur viðskiptavina og starfsfólks að meta hvort grímur séu nýttar í verslunum okkar eða ekki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert