Sigurður áfram í síbrotagæslu

Sigurður Ingi Þórðarson er betur þekktur sem Siggi hakkari.
Sigurður Ingi Þórðarson er betur þekktur sem Siggi hakkari. mbl.is/Árni Sæberg

Samtals 15 manns eru með réttarstöðu sakbornings í stóru fjársvika-, peningaþvættis- og skjalafalsmáli sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur til rannsóknar. Einn hinna grunuðu er Sigurður Ingi Þórðarson, sem lengi var þekktur sem Siggi hakkari, en hann sætir síbrotagæslu. Hefur hann þegar setið í rúmlega fjórar vikur í slíkri gæslu og var hún framlengd um fjórar vikur til viðbótar nýverið.

Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn staðfestir við mbl.is að einn sé í varðhaldi vegna málsins og 14 aðrir með stöðu sakbornings. Rúv greindi fyrst frá stöðu málsins, en þar kemur fram að fólkið sé grunað um að hafa stofnað til reikningsviðskipta við tugi fyrirtækja og svikið þau. Er um að ræða allt frá sjoppum til fjármálafyrirtækja, en Stundin greindi í byrjun mánaðarins frá því þegar Sigurður var settur í síbrotagæslu og um hvaða fyrirtæki væri að ræða. 

Margeir segir við mbl.is að meint brot hlaupi á einhverjum tugum milljóna við fyrstu sýn. Brotaþolar eru að hans sögn mestmegnis fyrirtæki, en um sé að ræða umfangsmikið mál og lögreglan vinni nú úr þeim gögnum sem hafi borist.

Sigurður hefur áður hlotið þunga dóma, en hann var árið 2014 dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir fjölda afbrota, þó aðallega fjársvika. Játaði hann þá að hafa svikið út um þrjátíu milljónir, en hann var dæmdur til að greiða samtökunum Wikileaks rúmar sjö milljónir sem hann sveik frá samtökunum. Hafði Sigurður stuttu áður fengið átta mánaða dóm fyrir kynferðisbrot gegn 17 ára pilti.

Árið 2015 var hann svo dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir brot gegn níu drengjum, meðal annars gegn einum piltanna alls 40 sinnum á tveggja ára tímabili. Sagði í niðurstöðu dómsins að brot Sig­urðar hafi verið um­fangs­mik­il og brota­vilji hans ein­beitt­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert