„Sigurður beitti son okkar hrottalegu ofbeldi“

Sigþóra Bergsdóttir og eiginmaður hennar rituðu grein á Vísi í …
Sigþóra Bergsdóttir og eiginmaður hennar rituðu grein á Vísi í kvöld. mbl.is/Hari

Foreldrar eins fórnarlamba Sigga hakkara, gagnrýna harkalega vinnubrögð dansks þáttargerðarfólks og segja framleiðendur ljúga því að þættirnir hafi verið unnir með þeirra samþykki. 

Í aðsendri grein sem birtist á Vísi í kvöld, segja foreldrar Bergs Snæs, Sigurþóra Bergsdóttir og Rúnar Unnþórsson, umfjöllun í þáttunum óvandaða og bera vott um fégirni. Birting Stöðvar 2 sýni vott um dómgreindarleysi og jaðri við siðleysi.

„Sigurður beitti son okkar hrottalegu ofbeldi“

Bergur Snær fyrirfór sér aðeins 19 ára gamall en mál hans gegn Sigurði Inga Þórðarsyni, betur þekktum sem Sigga hakkara var fellt niður af saksóknara, þrátt fyrir að vitnisburður hans væri samhljóma vitnisburðum annarra fórnarlamba. 

„Sigurður beitti son okkar hrottalegu ofbeldi í þrjú ár, þegar sonur okkar var 14-17 ára. Hann hélt áfram að áreita son okkar og reyna að halda sambandi við hann alveg þar til hann tók sitt eigið líf, 19 ára,“ segir í grein foreldra hans. 

Þau finna sig knúin til að tjá sig um þáttargerðina til að standa vörð um minningu og mannorð sonar síns. Þau hafi vart trúað eigin augum er þau sáu myndskeið í þáttunum þar sem Sigurður fer að leiði sonar þeirra og nafn hans á grafarreitnum er sýnt í nærmynd. 

Sigurður Ingi Þórðarson er betur þekktur sem Siggi hakkari.
Sigurður Ingi Þórðarson er betur þekktur sem Siggi hakkari. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Fékk vettvang til að bulla án ritskoðunar

Segja foreldrar Bergs Snæs að þau hafi verið í samskiptum við dönsku framleiðendurnar fyrir tveimur árum og alfarið lagst gegn gerð og síðar birtingu þeirra. Ástæða þess sé að þau hafi vitað að Sigurður væri hræðilegur maður og öll umfjöllun um hann myndi aðeins fæða skrímslið. 

„Svo virðist sem okkar helsti ótti um efnistök hafi raungerst. Það er, að í þáttunum fær Sigurður vettvang til að bulla án ritskoðunar.“

Danska þáttargerðarfólkið hafi aftur haft samband viku fyrir birtingu þáttanna og ítrekað að ekki yrði birt mynd af Bergi Snæ að ósk foreldra hans. 

„Við þökkuðum þeim fyrir að láta okkur vita, ítrekuðum andstöðu okkar við þessa þætti, spurðum ekkert um efnistök og afþökkuðum að láta hafa eitthvað eftir okkur.“

Skömm þeirra sem tóku þátt mikil

Sigurþóra og Rúnar segjast ekki hafa vitað að myndskeið af Sigurði að heimsækja leiði sonar þeirra yrði í þáttunum. Segja þau vart geta orðum bundist um hversu ófyrirleitið það sé að fara með Sigurð að heilögum grafareiti sonar þeirra. 

„Skömm þeirra sem tóku þátt í þessu er mikil,“ segja foreldrar Bergs og vanda ekki heldur Stöð 2 og Vísi kveðjurnar. Það að Stöð 2 hafi keypt þættina beri vott um dómgreindarleysi sem jaðri við siðblindu.

„Síðan er höfuðið bitið af skömminni með óvönduðum fréttaflutningi um þættina á visir.is. Allt til að græða pening.“

Þau senda öðrum fórnarlömbum, Sigurðar hlýhug og bjóða þeim að hafa samband vanti þau styrk eða aðstoð. Þau hvetji fólk til að hunsa þættina og mótmæla sýningu Stöðvar 2 á þeim. 

„Við munum anda okkur í gegnum þetta, hugsa fallega til sonar okkar og allra fórnarlamba Sigurðar, og vona að storminn lægi sem fyrst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert