„Í rauninni síðasta tækifærið okkar“

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna COP26 er nú haldin í Glasgow.
Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna COP26 er nú haldin í Glasgow. AFP

„Ef það næst almennur skilningur um að þetta er síðasta tækifærið okkar til  að halda hugmyndinni á lofti um að hlýnun fari ekki yfir 1,5 gráður þá mun ráðstefnan bera árangur,“ segir Tinna Hallgrímsdóttir, formaður Ungra umhverfissinna, í samtali við mbl.is en hún er viðstödd loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP26, sem hófst formlega í Glasgow í dag.

Tinna Hallgrímsdóttir, formaður Ungra umhverfissinna.
Tinna Hallgrímsdóttir, formaður Ungra umhverfissinna. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Hún segir að aðalframlögin til ráðstefnunnar séu landsframlögin sem eru unnin fyrir hana. „Þau virtust ekki vera á réttri leið í nýjustu stöðuskýrslu, en vonandi mun það breytast til hins betra.“

Tinna segir að með ráðstefnunni sé í rauninni ekki verið að semja um neitt nýtt í grundvallaratriðum

„Fremur er verið að tryggja að það sem ákveðið var í París árið 2015 raungerist. Það eru ýmsar ákvarðarnir frá þeirri ráðstefnu sem þarf að gera skil. Þetta er í rauninni úrslitastundin, hvort markmiðið um 1,5 gráður muni fara fyrir bí eða hvort við náum að minnsta kosti að halda þeim möguleika opnum.“

Tinna segir ekki vera annan kost í stöðunni en að vera bjartsýn á að markmiðið náist. „Það á bara eftir að koma í ljós hvort við náum þeirri samstöðu og trausti meðal alþjóðsamfélagsins sem nauðsynlegt er til ná þessu saman.“

Ísland ekki með sjálfstæðan metnað

Spurð hvort Ísland geti haft áhrif í loftslagsmálum segir Tinna að svo geti verið en það sé ekki endilega raunin nú.

„Með því að vera lítið land þá er hægt að ráðast hratt í kerfisbreytingar sem þarf til að draga mikið úr losun, sér í lagi í landi þar sem við höfum ofgnótt af hreinni orku. Staðan núna er að Ísland er í raun ekki að koma með neitt sérstakt að borðinu í Glasgow. Við erum hluti af sameiginlegu landsframlagi í samstarfi við Evrópusambandið og Noreg. Það á eftir að ákvarða samkvæmt reiknireglum hver hlutur Íslands verður,“ segir Tinna og nefnir að önnur norræn ríki hafi sett sér og lögfest sjálfstæð markmið fyrir árið 2030.

„Við erum ekki með neitt lögfest markmið nema kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 sem á eftir að skilgreina. Ég sé ekki sjálfstæðan metnað sem myndi endurspegla að Ísland ætli að gera sig gildandi í loftslagsmálum á alþjóðavettvangi,“ segir hún og bætir við að Ísland hafi þó mikla möguleika.

„Við erum alls ekki að gera nóg til að sýna að við tökum loftslagsmálin nægilega alvarlega,“ segir Tinna og bætir við að við gætum verið komin mun lengra í málaflokknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert