Hlutfall rúma á íbúa næstum helmingast á tólf árum

Í Silfrinu á sunnudag hafði Svanhildur sagst vilja vita hvað …
Í Silfrinu á sunnudag hafði Svanhildur sagst vilja vita hvað hefði breyst á þessum tólf árum.

Farsóttanefnd Landspítalans hefur svarað gagnrýni Svanhildar Hólm, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, þar sem nefndin útlistar það helsta sem hefur breyst frá árinu 2009, sem gert hafi það að verkum að áhrif faraldurs Covid-19 séu umtalsvert meiri en áhrif faraldurs svínaflensunnar fyrir tólf árum.

Í Silfrinu á sunnudag sagðist Svanhildur vilja vita hvað hefði breyst á þessum tólf árum sem gerði það að verkum að á þeim tíma hafi enginn talað um að fara í neinar sérstakar aðgerðir til að vernda spítalann vegna þess að hann gæti ekki þolað það álag sem fylgdi faraldrinum.

„En núna í hvert sinn sem að smitum fjölgar örlítið, við erum ekki að tala um að innlögnum er að fjölga stórkostlega, þá fer allt í baklás og farið að benda á að hér verði komið á einhverju neyðarstigi,“ sagði Svanhildur.

Ríflega 900 rúm árið 2009

Í útlistun nefndarinnar eru átta atriði nefnd og eru þar á meðal rúmpláss og gjörgæslurými spítalans. Rúmpláss eru nú 260 færri en þau voru er svínaflensan geisaði árið 2009.

Ríflega 900 rúm voru á Landspítala árið 2009 eða 285 rúm á hverja 100.000 íbúa og 18 gjörgæslurými. Í dag eru rúmin 640 talsins eða 175 á hverja 100.000 íbúa og gjörgæslurýmin 14. Hefur rúmplássum þannig fækkað um nær helming hlutfallslega.

Í svörum nefndarinnar kemur einnig fram að í svínaflensufaraldrinum lögðust um 130 sjúklingar inn á spítalann og þurfti 21 gjörgæslumeðferð. Það sem af er Covid-19 faraldrinum hafa 492 sjúklingar lagst inn á Landspítala og 87 þeirra þurft gjörgæslumeðferð.

Óljóst hvers vegna væri verið að bera faraldrana saman

Í svari nefndarinnar segir meðal annars að óljóst þyki hvers vegna þessir faraldrar séu bornir saman.

„Hvers vegna þessir faraldrar eru bornir saman er óljóst enda ólíku saman að jafna. Fjölmargt kemur þar til en þó eru eftirtaldir þættir augljósastir og á flestra vitorði sem til málanna þekkja.“

Eftirfarandi er útlistun spítalans:

  1. COVID-19 hefur staðið í 20 mánuði en faraldur svínaflensunnar var viðfangsefni á Landspítala í 75 daga.
  2. Svínaflensa er inflúensa sem er vel þekktur sjúkdómur en COVID-19 er nýr og áður óþekktur sjúkdómur.
  3. Bólusetning við svínaflensu hófst strax með góðum árangri en bólusetningar við COVID-19 hófust tæpu ári eftir að faraldurinn hófst og árangurinn er ekki jafn góður af þeim bólusetningum.
  4. Við svínaflensu var unnt að nota veirulyfið Tamiflu sem dró úr veikindum og kom jafnvel í veg fyrir þau. Slík lyf eru ekki fáanleg við COVID-19.
  5. Í svínaflensufaraldrinum lögðust um 130 sjúklingar inn á spítalann og þurftu 21 gjörgæslumeðferð. Það sem af er COVID-19 faraldri hafa 492 sjúklingar lagst inn á Landspítala og 87 þeirra þurft gjörgæslumeðferð, sumir oftar en einu sinni.
  6. Áhrif svínaflensunnar á samfélagið voru mun minna en COVID-19, þar sem ekki þurfti að beita rakningu, einangrun og sóttkví. Þessi staðreynd hefur umtalsverð áhrif á starfsemi Landspítala nú.
  7. Árið 2009 voru ríflega 900 rúm á Landspítala (285/100.000 íbúa)og 18 gjörgæslurými. Þau eru nú rúm 640 (175/100.000 íbúa)og gjörgæslurýmin 14.
  8. Ekki er rétt munað að ekki hafi þurft að fara í sérstakar ráðstafanir á Landspítala vegna svínaflensunnar. Starfsemi spítalans tók þeim breytingum þá sem nauðsynlegt var í farsótt eins og nú en þær stóðu aðeins yfir í fáeinar vikur, sem kann að skýra að einhverjir muni ekki þá alvarlegu stöðu sem uppi var á þeim tíma.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert