Neyðarástand skapist með sama áframhaldi

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna vegna Covid-19 að staðan á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri væri þung. Með núverandi smitfjölda muni skapast neyðarástand á spítölunum.

Sóttvarnalæknir benti á að neyðarástand hefði skapast á sjúkrahúsum víða í Evrópu vegna uppgangs veirunnar. Staðan væri til að mynda slæm í austurhluta álfunnar en í Rúmeníu eru gjörgæslusjúklingar fluttir milli landa.

„Við viljum ekki lenda í því og grípum til aðgerða til að koma í veg fyrir slíkt,“ sagði Þórólfur.

Hann vonast til þess að nýkynntar samkomutakmarkanir skili árangri en segir lykilatriði hvernig fólk stundi einstaklingsbundnu sóttvarnirnar. Með því á hann við að fólk forðist mannmarga staði, haldi fjarlægð og noti grímu þegar það er ekki hægt.

Þórólfur hvetur viðburðahaldara til að krefjast neikvæðrar niðurstöðu úr hraðprófum þó reglugerð kveði ekki á um slíkt á minni viðburðum.

Hann benti enn fremur á átak í örvunarbólusetningu og sagðist vonast til að þær skili árangri til að ná viðunandi hjarðónæmi gegn veirunni. Reynslan eigi eftir að skera út um hvort svo verði eða ekki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert