Stefna á að ná 100 km innan fimm ára

Þegar hafa verið lagðir um 60 km af göngu- og …
Þegar hafa verið lagðir um 60 km af göngu- og hjólastígum utan höfuðborgarsvæðisins í samvinnu Vegagerðarinnar og sveitarfélaga. Á næstu 5 árum er gert ráð fyrir 40-50 km til viðbótar. Ljósmynd/Vegagerðin

Á undanförnum árum hefur Vegagerðin í samstarfi við sveitarfélög á landsbyggðinni lagt um 60 kílómetra af stígum sem ætlaðir eru fyrir gangandi og hjólandi. Á fimm ára áætlun Vegagerðarinnar er svo gert ráð fyrir öðrum 40-50 kílómetrum og yrði þá heildarvegalengd slíkra stíga utan þéttbýlis kominn yfir 100 kílómetra.

Kemur þetta í kjölfar þess að vegalögum var breytt árið 2007 og opnað var á að veita fé til hjóla- og göngustíga meðfram umferðarmestu þjóðvegum landsins. Fyrstu framkvæmdirnar fóru af stað árið 2012 með stíg meðfram Grindavíkurvegi, en síðan þá hafa áherslur og kröfur til stíganna breyst umtalsvert.

Þetta var meðal þess sem rætt var um á morgunfundi Vegagerðarinnar um hjólastíga í dag. Valtýr Þórisson, forstöðumaður áætlanadeildar Vegagerðarinnar, hélt erindi þar sem hann fór yfir sögu og framtíðarhorfur varðandi þessi verkefni.

Nýi stígurinn meðfram Eyrarbakkavegi frá Selfossi og í áttina að …
Nýi stígurinn meðfram Eyrarbakkavegi frá Selfossi og í áttina að Eyrarbakka. 4 km hafa þegar verið lagðir og gert er ráð fyrir að klára þá 6 km sem upp á vantar á komandi árum. Ljósmynd/Vegagerðin

150-350 milljónir árlega auk framlags frá sveitarfélögum

Þegar kemur að þessum stígum styrkir Vegagerðin allt að helming framkvæmdarinnar, en sveitarfélög koma með helmings mótframlag. Sagði Valtýr að undantekning væri þó á þessu þegar um langleiðir utan höfuðborgarsvæðisins væri að ræða hjá minni sveitarfélögum. Þá gæti framlag Vegagerðarinnar verið hærra, eða allt að 70%.

Frá árinu 2011 til 2019 segir Valtýr að Vegagerðin hafi lagt 2 milljarða í uppbyggingu hjóla- og göngustíga. Þá sé gert ráð fyrir um 150-350 milljóna fjárveitingum í þennan málaflokk árlega á komandi árum, en við bætist svo fjárveiting sveitarfélaganna. Á fundinum kom fram að einn kílómetri af hjólastíg utan þéttbýlis kostaði í dag um 20-50 milljónir. Sé gert ráð fyrir 150-350 milljónum frá Vegagerðinni árlega og öðru eins frá sveitarfélögum má því búast við 6-30 kílómetrum af viðbótar hjóla- og göngustígum sem þessum árlega. Hins vegar verður að taka með í reikninginn að í sumum tilfellum er hlutfall Vegagerðarinnar hærra eins og fyrr segir og gæti vegalengdin orðið styttri sem því nemur.

Milli Sandgerðis og Garðs var lagður stígur í fyrra.
Milli Sandgerðis og Garðs var lagður stígur í fyrra. Kort/Loftmyndir/Vegagerðin

Frumkvæðið hjá sveitarfélögunum

Fyrstu árin var mest um verkefni á höfuðborgarsvæðinu og á Suðvesturlandi, en eftir það fóru að bætast við verkefni víðar á landinu. Valtýr tók fram að ekki væri um miðstýrt verkefni Vegagerðarinnar að ræða, heldur þyrftu sveitarfélög sjálf að sækjast í að vilja fara þessa leið, fá leyfi landeiganda og klára skipulagsvinnu. Ef það lægi fyrir og Vegagerðin tæki þátt þyrfti svo einnig að taka mið af nýlegum hönnunarreglum varðandi stíga sem þessa. Þannig benti Valtýr á að stígurinn á Grindavíkurvegi, sem liggur meðfram Bláa lóninu, hefði líklega ekki verið samþykktur sem hluti af þessu verkefni miðað við kröfurnar sem Vegagerðin setur í dag. Þannig sé hann meðal annars ekki að fullu malbikaður og sé ekki nægjanlega breiður.

Samkvæmt aðalskipulagi Akureyrar er gert ráð fyrir þéttu neti hjólastíga …
Samkvæmt aðalskipulagi Akureyrar er gert ráð fyrir þéttu neti hjólastíga á Akureyri á komandi árum. Stofnstígar eru í dökkbláum lit auk þess sem stofnstígar meðfram þjóðvegum sem Vegagerðin kemur að eru í fjólubláum lit. Gulu leiðirnar tákna stíga sem þegar hafa verið lagðir. Kort/Vegagerðin

Þeir stígar sem hafa verið lagðir frá árinu 2011 utan höfuðborgarsvæðisins og sem hluti af þessu verkefni eru eftirfarandi:

  • 2012-19: Stígur meðfram Grindavíkurvegi frá Grindavík, framhjá Bláa lóninu og langleiðina að Reykjanesbraut. 12 km
  • 2014-15: Fellabær meðfram Hringvegi við Lagarfljót. 0,7 km.
  • 2015: Reykjanesbær – Keflavíkurflugvöllur. 2,4 km.
  • 2017: Snæfellsbær milli Ólafsvíkur og Rifs. Malbikun eldri stígs. 6 km.
  • 2017: Selfoss, stígur meðfram Hringvegi frá Ölfusárbrú að Árbæjarvegi. 0,9 km.
  • 2017-18: Akureyri að Hrafnagili. 7,2 km
  • 2018-19: Þorlákshöfn vestur meðfram Suðurstrandarvegi að verksmiðju Lýsis. 4,2 km.
  • 2018-19: Fjörustígur milli Eyrarbakka og Stokkseyri. 3,6 km.
  • 2020: Stígur meðfram Ólafsfjarðarvegi á Dalvík. 0,9 km.
  • 2020: Vesturbrú í Eyjafirði
  • 2020: Suðurnesjabær, stígur á milli Garðs og Sandgerðis. 4,1 km.
  • 2020-21: Grindavík. Stígur vestan við Grindavík að golfvellinum. 4 km.
  • 2020-21: Mývatnssveit milli Reykjahlíðar og Dimmuborga. 5,3 km.
  • 2020-21: Stígur meðfram Vatnsleysuvegi frá Vogum í norðurátt í átt að byggð meðfram ströndinni. 2,5 km.
Framkvæmdir eru hafnar við stíg á milli Vaðlaheiðaganga og Skógarbaðanna. …
Framkvæmdir eru hafnar við stíg á milli Vaðlaheiðaganga og Skógarbaðanna. Verður stígurinn ofan á heitavatnslögn frá göngunum. Kort/Loftmyndir/Vegagerðin

Suðvesturhornið og Norðurland á næstu árum

Valtýr fór svo yfir komandi verkefni sem Vegagerðin horfi til á fimm ára áætlun, fyrir utan þau sem eru í samgöngusáttmálanum. Flest verkefnin eru á suðvesturhorninu, en einnig eru þrjú á Norðurlandi. Samtals er um að ræða um 40-50 kílómetra. Með þessum framkvæmdum verður að sögn Valtýs m.a. orðið nokkuð stutt í að góð hjólaleið verði komin frá höfuðborgarsvæðinu að flugstöðinni.

  • Vesturlandsvegur um Kjalarnes samhliða framkvæmd við tvöföldun vegarins. Gert ráð fyrir þessu á næstu 2-3 árum og að heildarvegalengd stígsins verði um 10 km.
  • Reykjanesbraut í Hafnarfirði út að álveri, samhliða framkvæmdum við aðskilnað á akstursstefnu vegarins. Miðað við framkvæmdaáætlun er gert ráð fyrir þessu á næstu tveimur árum, en heildarvegalengd er um 5 km.
  • Reykjanesbær, frá Innri-Njarðvík að Grindavíkurveg. Valtýr segir að vonandi komi að þessu á næsta ári, en um sé að ræða 3 km stíg.
  • Stígur frá Grindavíkurveg að Vogum, samtals um 2 km.
  • Selfoss-Eyrarbakki. Framhald á núverandi framkvæmd. Enn er eftir að leggja 6 km.
  • Stofnstígagerð á Akureyri meðfram Hringveginum, auk nýrrar brúar yfir Glerá. Verkefni sem hugsað er til 6 ára, en samtals mun Vegagerðin koma að lagningu 7 km af stígum.
  • Skútustaðahreppur. Haldið áfram með hugmynd um hringstíg umhverfis Mývatn. Samtals 11 km kafli frá Dimmuborgum að Skútustöðum, en framkvæmdir eru hafnar.
  • Stígur milli Vaðlaheiðaganga og Skógarbaða sem er verið að byggja. Byggja á um 2,1 km stíg ofan á vatnslögn sem flytur heitt vatn frá göngunum. Framkvæmdir eru hafnar og gert er ráð fyrir að verkið verði klárað á næsta ári.  
Á Mývatni er þegar búið að leggja 5,3 km stíg …
Á Mývatni er þegar búið að leggja 5,3 km stíg frá Reykjahlíð að Dimmuborgum. Áformað er á næstu árum að halda áfram í Skútustaði, en þetta er hluti af hugmynd um stíg í kringum vatnið. Kort/Loftmyndir/Vegagerðin

Fimm ára planið að mestu fullt

Í samtali við mbl.is eftir fundinn sagði Valtýr að miðað við fjárheimildir sé fimm ára planið nú að mestu fullt. Hins vegar sé planið alltaf lifandi, þannig að ef ein framkvæmd dettur út sé reynt að finna annað. Spurður um aðrar framkvæmdir sem séu lengra á sjóndeildarhringnum segir Valtýr að Vegagerðin viti af áhuga fleiri sveitarfélaga, en að það sé ekki niðurneglt. Þannig hafi meðal annars verið rætt um stíg á milli Hellu og Hvolsvallar, frekari tengingar milli Hafnarfjarðar og Voga og einnig hugmyndir um frekari stíga í Svalbarðshrepp.

Uppfært: Í upphaflegri frétt kom fram að kostaður við stígagerð utan þéttbýlis væri 20-25 milljónir á km. Hið rétta er að kostnaðurinn getur verið 20-50 milljónir á km, en það fer meðal annars eftir því hvort um lýsingu eða annað sé að ræða. Hefur fréttin verið uppfærð samkvæmt því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert