Segir umræðuna þurfa að ganga lengra

Tómas Kristjánsson, formaður Rafbílasambands Íslands.
Tómas Kristjánsson, formaður Rafbílasambands Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tómas Kristjánsson, formaður Rafbílasambandsins, gerir athugasemdir við orð Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, sem sagði í morgun að ljóst væri að ríkissjóður yrði af miklum tekjum á næstu árum samhliða sívaxandi rafbílavæðingu landsmanna. 

Ýjaði Bjarni að því að á komandi árum þyrfti að útfæra hvernig ný gjöld gætu komið stað þeirra gömlu, t.d. olíugjalda, og nefndi hann sérstakt kílómetragjald í því sambandi. 

Tómas Kristjánsson er sammála því að vert sé að ræða þessi mál, en segir á sama tíma að umræðan verði að ná lengra.

„Það er svo ofboðslega margt sem þarf að taka inn í þetta,“ segir hann við mbl.is.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti fjárlög næsta árs í …
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti fjárlög næsta árs í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óþarfi að skattlegja það sem veittar eru ívilnanir fyrir

Tómas segir þannig að ef til vill færi betur á því að draga úr skatta- og tollaívilnunum á innflutning rafbíla áður en settar eru álögur á eign slíkra bíla. 

Þar að auki nefnir hann þá staðreynd að um leið og olía verður ekki lengur flutt til landsins til þess að knýja bílaflota þjóðarinnar sparist óhemjumikið magn gjaldeyris. Tómas segir því ekki endilega rétt að ríkið tapi á því að engin olía sé flutt hingað til lands og gjald innheimt vegna þess.

„Þegar ríkið hættir að flytja inn 320 þúsund tonn af olíu og bensíni á ári þá sparar það ógurlegt magn af gjaldeyri, sem er ein aðalástæða gjaldeyrishalla okkar.“

„Þetta er í raun heildarendurskoðun á öllu kerfinu og heildarendurskoðun á orkunotkun þjóðarinnar. Það er því gallað að fara að tala bara um tapaðar tekjur af olíugjaldi, þetta er miklu stærra en bara það.“

Umræðan um olíugjaldið sumpart á villigötum

Tómas bendir á að olíugjaldið sé ekki eyrnamerktur skattur sem sjálfkrafa sé veitt í vegaframkvæmdir eða samgöngumál. Hann segir að um sé að ræða tekjulind fyrir ríkissjóð sem komi ekki rafbílum endilega við. 

„Olíugjaldið hefur ekki verið tengt vegakerfinu í mörg ár þannig þetta er smá vitleysa sem ráðherra setur fram,“ segir hann og bætir við:

„Olíugjaldið er bara tekjulind ríkissjóðs. Þetta fer svolítið á villigötur með því að blanda rafbílum inn í þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert