Sveik loforð við Ingu í jómfrúarræðunni

Tómas kveðst kominn á Alþingi með það fyrir augum að …
Tómas kveðst kominn á Alþingi með það fyrir augum að láta gott af sér leiða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tómas Andrés Tómasson sló á létta strengi þegar hann hélt jómfrúarræðu sína fyrir Alþingi í dag og mátti heyra hlátur í þingsalnum milli þess sem hann beindi umræðunni að þyngri málefnum á borð við fáttækt og misskiptingu í samfélaginu.

„Ég heiti Tómas kallaður Tommi og ég er að halda jómfrúarræðu mína hér og nú,“ sagði Tómas þegar hann kynnti sig þó eflaust megi gera ráð fyrir að flestir í þingsalnum þekki vel til hans. 

Dró upp skilti Bandaríkjaforseta

Beindi hann næst ræðu sinni að 33. Bandaríkjaforsetanum Harry S. Truman sem að sögn Tómasar hafði það fyrir sið að segja: Ég ber ábyrgð. Ekki á minni vakt. Hingað og ekki lengra.

„En hann sagði það svona: „The Buck stops here“, og hann hafði þetta á skrifborði sínu alla sína forsetatíð,“ sagði Tómas og hafði þá dregið upp skilti með sömu áletrun og lagði á ræðupúltið. 

Braut loforð við formanninn

Því næst braut hann loforð sem hann hafði gefið Ingu Sæland, formanni Flokks fólksins, og uppskar mikinn hlátur í þingsalnum fyrir vikið.

„Ég lofaði Ingu því á sínum tíma þegar ég kom til liðs við hana að þegar ég myndi halda mína jómfrúarræðu að ég myndi ekki segja „eru ekki allir í stuði“,“ sagði Tómas og bætti síðan glettinn við „En ég segi nú samt, eru ekki allir í stuði?“ 

Óásættanlegt að fólk geti ekki haldið gleðileg jól

Þó ræðan hefði einkennst af skrautlegum lýsingum og áhugaverðum frösum var sjónunum þó ekki síður beint að mikilvægum málefnum á borð við misskiptingu og fáttækt í samfélaginu. 

„Hérna er alltaf verið að röfla um peninga, það kostar allt. Það kostar þetta, kostar hitt. það er bara þannig að það kostar allt eitthvað og suma hluti verðum við bara að kaupa og borga. Það þýðir ekkert að segja að það eru ekki til peningar,“ sagði Tómas og bætti síðan við að hann gæti hreinlega ekki sætt sig við það að það væri fólk í samfélaginu sem ættu ekki nóg til að halda gleðileg jól. 

„Come on. Við getum ekki verið þekkt fyrir það.“

Að lokum kvaðst Tómas hafa komið á þing með það fyrir augum að vilja láta gott af sér leiða, líkt og aðrir sem hafa gengið í sömu fótspor.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert