Opnar nýjan glugga að Íslendingasögum

Baldur Hafstað.
Baldur Hafstað. mbl.is/Árni Sæberg

Baldur Hafstað, fyrrverandi prófessor í íslensku við Kennaraháskóla Íslands, hefur séð um tíu vikna fornsagnanámskeið fyrir og eftir jól hjá Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni undanfarin sjö ár. Nú fyrir jólin fór hann yfir valin brot úr Sturlungu, tengd Skagafirði, og 14. janúar hefst námskeið um Grettis sögu. Síðan er stefnt að vettvangsferð norður í vor, en hefð er fyrir því að heimsækja söguslóðir að loknum námskeiðum hvers vetrar. „Við erum alltaf með nýjar gamlar sögur enda úr nógu að velja. Oft eru þetta sögur sem fáir þekkja, og þessi fjölbreytileiki kemur fólki stundum á óvart,“ segir Baldur.

Tryggvi Sigurbjarnarson verkfræðingur ruddi brautina og bað Baldur svo að taka við keflinu. „Ég kom að góðu búi Tryggva og síðan hefur þátttakendum fjölgað.“ Ákveðinn kjarni mæti alltaf en ný andlit birtist í hvert sinn og nú séu á annað hundrað manns í hópnum. „Stundum hvíla menn sig og koma svo aftur á næsta eða þarnæsta misseri.“

Fróðleikur og þekking

Þátttakendur hafa sjálfir margt til málanna að leggja. „Gríðarlegur fróðleikur og þekking á tilteknum sviðum býr í svona hópi,“ segir Baldur. Sumir séu til dæmis vel að sér í kristnum fræðum, aðrir í goðafræði, siglingatækni, lögfræði og svo framvegis. Og læknar geti lumað á skýringum á sjúkdómum, sem fjallað sé um í sögunum. Sérsviðin séu mörg í fjölbreyttum hópi og því skapist oft fjörugar umræður. „Svo er líka skipst á skoðunum í kaffitímanum og þá getur hitnað í kolunum.“

Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert