Tjaldurinn setti met

Tjaldurinn hefur sett Íslandsmet. Mynd úr safni.
Tjaldurinn hefur sett Íslandsmet. Mynd úr safni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Tjaldurinn LO-CC hefur sett nýtt Íslandsmet en hún var komin í Kjós í gær, 16. febrúar. Hún hefur vetursetu á Ermasundseyjum og sást á Guernsey fyrir tíu dögum. Sjálf átti hún fyrra met sem hún setti á síðasta ári en þá kom hún í Kjós 18. febrúar.

Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Suðurlandi greindi frá þessu fyrr í dag en ekki er vitað til þess að íslenskur landfugl sem dvelur erlendis yfir vetur hafi sést svo snemma hér á landi.

Yann Kolbeinsson fuglafræðingur segir það merkilegt að fuglarnir séu sumir hverjir að koma mun fyrr en talið hefur verið. Áður var talið að tjaldar væru almennt byrjaðir að koma til landsins í byrjun mars. „Þetta er að gefa okkur aðra mynd á farið þeirra,“ segir Yann.

Spurður um hvort vorið sé að koma snemma í ár segir Yann að best sé að segja sem minnst um það. Þó sjáist vísbendingar um að vorið sé komið meðal annarra fuglategunda, sérstaklega hjá sjófuglum en af landfuglunum séu tjaldar með þeim allra fyrstu til að koma á vorin.

Þeir tjaldar sem ekki hafa vetursetu á Íslandi virðast vera að yfirgefa landið síðsumar og fram eftir hausti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert