Verður vísað úr landi að öllu óbreyttu

Ljósmynd/Aðsend

Bandaríska samfélagsmiðlastjarnan Kyana Sue Powers sem hefur verið búsett á Íslandi í rúm tvö ár að kynna íslenskt samfélag og náttúru fyrir heimsbúum, stendur nú frammi fyrir því að vera vísað úr landi.

Þykir sérfræðingum Útlendingastofnunar sérfræðiþekking hennar á stafrænni markaðssetningu ekki nógu sannfærandi til að hún fái samþykkt dvalarleyfi þar sem hún hefur meðal annars ekki hlotið viðeigandi nám í því fagi.

Hún hefur nú fest rætur hér á landi, kynnst fjölmörgum vinum sem hún kallar nú fjölskylduna sína, og getur hún ekki hugsað sér að fara. Kallar hún eftir því að ákvörðunin verður endurskoðuð og hefur meðal annars fengið lögfræðing til að áfrýja málinu.

Skapi verðmæti fyrir landið

Margir landsmenn þekkja nafn Kyönu en hún hefur verið dugleg að deila frá lífi sínu á Íslandi á samfélagsmiðlum á borð við Instargam og TikTok. Eftir að hafa komið til landsins áttaði hún sig fljótlega á því að mikil eftirspurn var eftir því efni sem hún var að skapa og deila og hefur hún nú stofnað fyrirtæki Kraftar Media, þar sem hún sérhæfir sig í að búa til kynningar- og markaðsefni fyrir Íslands, ásamt því að veita íslenskum fyrirtækjum ráðgjöf í þeim efnum.

Kyana hefur verið dugleg að ferðast um landið og taka …
Kyana hefur verið dugleg að ferðast um landið og taka myndir. Ljósmynd/Aðsend

Að eigin sögn hefur hún fengið þúsundir ferðalanga til að koma til landsins og þekkir hún marga námsmenn sem ákváðu að sækja um í háskólum hérlendis eftir að hafa fylgst með henni á samfélagsmiðlum. Skapar hún þannig mikið verðmæti fyrir landið með markaðssetningu.

Enginn vildi ráða bandarískan ríkisborgara

Kyana kom fyrst til landsins árið 2018, þá sem ferðamaður. Hún kolféll fyrir íslenskri náttúru og samfélaginu hér, og var staðráðin í að flytja hingað einn daginn.

„Ég varð ástfangin af landinu, þetta er tilfinning sem er erfitt að lýsa. Ég upplifði strax að hér ætti ég heima, svo ég byrjaði strax að skoða hvernig hægt væri að flytja hinga,“ segir Kyana.

Strax árið 2019 lét hún verða úr því og kom til landsins, þá í von um að geta sótt um atvinnuleyfi og fengið það samþykkt. Kyana gerði sér grein fyrir því að það yrði ekki leikur einn að fá slíkt leyfi en hafði þó talið sér trú um að það væri auðveldara ef hún væri staðsett hér á landi.

Ljósmynd/Aðsend

Vegna mikillar pappírsvinnu sem fylgir því að ráða bandarískan ríkisborgara og fá atvinnuleyfi reyndist hægara sagt en gert fyrir hana að fá vinnu og vildi enginn ráða hana hvert sem hún leitaði. Lauk hún meðal annars jöklaleiðsögumanna námskeiði í von um að vera ráðinn sem slíkur, það gekk ekki eftir.

„Það mistókst því að öllu leyti, enginn vildi mig.“

Sótti upprunalega um sem námsmaður

Til að vera ekki vísað úr landi sótti hún því upprunalega um dvalarleyfi sem námsmaður og sótti um háskólanám í eitt ár.

„Ég hugsaði, ef allt bregst þá ertu að minnsta kosti með dvalarleyfi sem námsmaður og það mun kaupa þér tíma.“

Stuttu seinna fór hún að byrja að deila frá lífi sínu á samfélagsmiðlum óx fjöldi fylgjenda hennar hratt. Áttaði hún sig fljótlega á því að eftirspurnin var slík að hún gat gert þetta að atvinnu sinni. Fóru íslensk fyrirtæki m.a. að hafa samband við hana og spyrja um ráðleggingar varðandi markaðssetningu á samfélagsmiðlum.

Ljósmynd/Aðsend

„Þetta var á þeim tíma sem fólk þurfti á smá ferðainnblæstri að halda og smá pásu frá daglegu lífi því allir voru lokaðir inn á heimilum sínum. Og ég var að deila slíku efni og fannst gaman að deila frá Íslandi með öðrum af því að ég hef mikla ástríðu fyrir landinu og ég vildi að allir myndu upplifa landið eins og ég. Ég vildi gera allt sem í mínu valdi stóð til að veita fólki innblástur og fá það til að koma til landsins.“

Hún deildi ekki bara frá lífi sínu og fallegum stöðum, heldur einnig ráðum um hvernig væri best að ferðast hér og hverju fólk ætti von á þegar það kæmi til landsins.

Starfaði hjá sínu eigin fyrirtæki

Eftir að hafa stofnað Kraftar Media gat hún ráðið sjálfa sig í vinnu í gegnum fyrirtækið. Sótti hún svo um dvalarleyfi fyrir tíu mánuðum á grundvelli sérfræðiþekkingar sinnar í þessu fagi, enda kveðst hún vera eina manneskjan á Íslandi sem rekur fyrirtæki framleiðir slíkt efni.

Fyrr í mánuðinum hafnaði Útlendingastofnun þó umsókninni um dvalarleyfið. Þótti þekking hennar ekki nógu sérhæfð og gæti hver sem er stundað þessa vinnu. Þá var einnig gerð athugasemd við að Kyana hafi ekki hlotið menntun í þessu fagi.

Hún ætlar þó ekki að gefast upp strax hefur því útvegað sér lögmann og áfrýjað ákvörðun Útlendingastofnunar. Fær hún að vera hér á meðan því ferli stendur, sem að hennar sögn er mikill léttir. Þá hefur hún einnig komið á fót undirskriftarlista sem fólk getur sett nafn sitt á.

Áhugasamir geta kynnt sér málið einnig betur í stuttri heimildarmynd sem Davíð Goði vinur Kyönu framleiddi.

Uppfært: 

Fram kemur í athugasemd Útlendingastofnunar vegna fréttarinnar að það sé hlutverk Vinnumálastofnunar að ákveða hvort umsækjendur uppfylli skilyrði þess að fá útgefið atvinnuleyfi á Íslandi.

„Borgarar ríkja utan EES þurfa atvinnuleyfi og dvalarleyfi til að búa og starfa á Íslandi. Útlendingastofnun hefur ekki aðkomu að því að meta hvort umsækjendur uppfylli skilyrði laga um atvinnuréttindi útlendinga,“ segir í athugasemd frá upplýsingafulltrúa Útlendingastofnunar.

„Til þess að stofnuninni sé heimilt að gefa út dvalarleyfi á grundvelli atvinnu verður Vinnumálastofnun að hafa samþykkt umsókn um atvinnuleyfi. Samþykki Vinnumálastofnun ekki umsókn um atvinnuleyfi eru ekki til staðar forsendur til að gefa út dvalarleyfi á grundvelli atvinnu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert