„Ég óskaði henni til hamingju“

Sólveig Anna (t.v.) og Ólöf Helga (t.h.).
Sólveig Anna (t.v.) og Ólöf Helga (t.h.). Samsett mynd

Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari í stjórn Eflingar, segir enga óvild hafa verið í garð Sólveigar Önnu Jónsdóttur á aðalfundi félagsins í gær þegar stjórnskipti fóru fram. 

Sólveig Anna tók þá við formennsku af Agnieszku Ewu Ziól­kowsku, sem fór aft­ur í embætti vara­for­manns. Ólöf Helga hætti sömuleiðis sem varaformaður og tók við sem ritari.

Í færslu á Facebook fyrr í dag lýsti Sólveig yfir undrun sinni á því að henni hafi ekki verið óskað til hamingju á fundinum af fráfarandi formanni og að ekki hafi verið gert ráð fyrir ræðu af hennar hálfu.

„Af minni hendi var enginn illvilji í garð Sólveigar, ekki frekar en frá Agnieszku, við bara höfum verið að reyna að gera þetta allt rétt en við höfum greinilega kannski gert einhver mistök,“ segir Ólöf.

Agnieszka hafi ekki verið upp í pontu

„Ég óskaði henni til hamingju, ég sá um það að lýsa kjöri stjórnar, ég var náttúrulega varaformaður þá, þannig ég nýtti tækifærið til að óska henni og B-listanum til hamingju.“

Að sögn Ólafar var fráfarandi formaður, Agnieszka, ekki upp í pontu þegar ný stjórn var kynnt svo hún hafði ekki sama tækifæri til að gera slíkt hið sama. „En það hefði líklega gerst seinna ef fundinum hefði ekki verið frestað.“

„Og ef það er þannig að Sólveig átti að vera með einhverskonar ávarp á þeim tímapunkti þá skrifast það líklega á mig og mitt reynsluleysi í að taka þátt í að skipuleggja aðalfund,“ segir Ólöf.

Hún kveðst hafa spurst fyrir um hvort venja væri fyrir því að bjóða formanni í pontu eftir að hafa kynnt nýja stjórn en að fátt hafi verið um svör. 

Runnu út á tíma

Á fundinum í gær tókst ekki að ljúka við dagskránna og mun hann því halda áfram á morgun. Eitt af því sem ekki tókst að afgreiða var atkvæðagreiðsla um lagabreytingar sem Sólveig Anna og félagar skiluðu til félagsins.

Í umræddri Facebook færslu Sólveigar kom einnig fram að fólk hefði lagt mikið á sig og seildist langt til þess að láta lagabreytingartillögurnar hljóma sem „auvirðilega tilraun“ hennar til að gerast einráð í félaginu.

Þetta er auðvitað fjarri lagi og hverri þeirri mann­eskju sem ekki hef­ur tapað hæfi­leik­an­um til gagn­rýn­inn­ar hugs­un­ar hefði átt að vera það ljóst,“ segir í færslunni.

„Klukkan var bara orðin margt þannig fundinum var frestaði,“ segir Ólöf, spurð út í atvikið.

Búið að benda á áhyggjurnar

Hún staðfestir þó að einhverjar áhyggjur hafi verið uppi varðandi tillögurnar og að hluti stjórnar hafi viljað skoða þær betur. 

„Áður var búið að benda henni á þessar áhyggjur okkar þannig þetta átti ekki að koma henni á óvart. En það var enginn að segja að hún hafi viljandi verið að reyna að sölsa undir sig allt vald. En með þessum breytingum var að okkar mati verið að auka nokkuð hennar vald bæði formanns og framkvæmdarstjóra, langt umfram það sem ég væri tilbúin að samþykkja.“

Vörðuðu tillögurnar m.a. breytingar á sjóðum félagsins. 

„Áhyggjurnar þar snúa að því að það er verið að taka út að reglugerðir sjóðanna séu samþykktar á aðalfundi. Það tæki í rauninni, að mínu mati, valdið algjörlega frá félagsmönnum okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert