Þrír voru handteknir í aðgerðum héraðssaksóknara

Héraðssaksóknari fer með rannsókn málsins.
Héraðssaksóknari fer með rannsókn málsins. mbl.is/Hjörtur

Samtals þrír voru handteknir í aðgerðum héraðssaksóknara á fimmtudaginn sem beindust gegn starfsmönnum Innheimtustofnunar og störfum þeirra fyrir stofnunina, meðal annars hvort verkefnum hafi verið ráðstafað í eigin þágu. Ekki var farið fram á gæsluvarðhald í málunum.

Á fimmtudaginn var greint frá því að starfsmenn héraðssaksóknara hefðu farið á Ísafjörð og ráðist í húsleit og handtekið Braga Axelsson, forstöðumann útibús stofnunarinnar á Ísafirði. Í kjölfarið var greint frá því að Braga og Jóni Ingvari Pálssyni, forstjóra stofnunarinnar sem hafði verið í leyfi vegna málsins, hefði verið sagt upp störfum.

Samkvæmt heimildum mbl.is var Jón Ingvar einnig handtekinn í aðgerðum héraðssaksóknara á höfuðborgarsvæðinu, sem og annar starfsmaður stofnunarinnar.

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari staðfestir við mbl.is að ekki hafi verið farið fram á gæsluvarðhald í málinu og samtals hafi 10 manns farið vestur og 6-8 tekið þátt í aðgerðunum á höfuðborgarsvæðinu. Segir hann að framkvæmdar hafi verið leitir, handtökur og svo yfirheyrslur. Hins vegar hafi ekki verið tilefni til gæsluvarðhalds, en Ólafur segir að slíkt hefði í málum sem þessum verið vegna rannsóknarhagsmuna, en það hafi ekki verið talið þarft í þessu máli.

Hann segir að búast megi við að yfirheyra þurfi fleiri í kjölfar aðgerðanna og jafnvel að ræða við einhverja aðila aftur. Hann segir rannsókn málsins í farvegi, en að svona aðgerðir „klári ansi margt.“

Í kjölfar þess að Jón Ingvar fór í leyfi tók stjórnarmaðurinn Garðar Jónsson við sem starfandi forstjóri. Hann hætti hins vegar eftir þrjá mánuði og hefur nú Ómar Valdimarsson, sem lengi var forstjóri Samkaup, tekið við starfinu.

Innheimtustofnun er með útibú á Ísafirði.
Innheimtustofnun er með útibú á Ísafirði. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert