Jón Ásgeir fær það óþvegið frá alþingismanni

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjárfestirinn Jón Ásgeir Jóhannesson fær ekki háa einkunn í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag sem skrifuð er af Ásthildi Lóu Þórsdóttur alþingismanni úr Flokki fólksins. 

Ásthildur nefnir í upphafi greinarinnar að fjárfestingafélagið SKEL hafi selt hlutinn sem það keypti í Íslandsbanka fyrir mánuði og keypt 2,5% hlut í VÍS fyrir 800 milljónir króna.

„Fyrir þá sem ekki vita þá heitir stjórnarformaður SKEL Jón Ásgeir Jóhannesson en hann fer fyrir eignarhaldsfélagi sem á yfir 50% í SKEL.

Kannski muna einhverjir eftir því að fyrir nokkrum árum átti Jón Ásgeir ráðandi hlut í þessum sama banka. Sá banki, ásamt nokkrum öðrum, tók eftirminnilega kollsteypu eftir glæfralegan bankarekstur Jóns og félaga hans. Jón gerði sér lítið fyrir og stakk af úr landi með fenginn, og skildi heilt þjóðfélag eftir í sárum,“ skrifar Ásthildur meðal annars. 

Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásthildur segir að þúsundir heimila hafi setið uppi með reikninginn sem Jón Ásgeir og samstarfsfólk hafi skilið eftir sig. 

„Þúsundir heimila sátu uppi með reikninginn frá Jóni og félögum og að minnsta kosti 15.000 fjölskyldur misstu heimili sín vegna þess skaða sem hann og nokkrir aðrir ollu og þá eru enn ótaldar þær þúsundir sem rétt náðu að halda heimili sínu með því að gera nauðasamninga við bankann sem setti þau í klafa fátæktar og skorts. En „Jón er kominn heim“ eins og segir í gömlu dægurlagi og hann er kominn með stæl,“ skrifar Ásthildur og bætir því við síðar í greininni að Jón Ásgeir sýni enga auðmýkt. 

Fyrirsögn greininnar er ÉG á þetta, ÉG má þetta, ÉG get þetta og greinina er hægt að nálgast í heild sinni í Morgunblaðinu í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert