Kemur óneitanlega enn meira við mann

Guðmundur Ingi leggur blóm á staðinn þar sem árásin átti …
Guðmundur Ingi leggur blóm á staðinn þar sem árásin átti sér stað. Ljósmynd/Aðsend

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, segir fólk í Ósló bæði dapurt og slegið vegna skotárásarinnar sem varð í borginni aðfaranótt laugardags.

Árásin, sem hefur verið skilgreind sem hryðjuverk, átti sér stað á skemmtistaðnum London Pub, sem er vinsæll samkomustaður hinsegin fólks. Tveir létust í árásinni og 21 særðist.

„Það er náttúrlega einstaklega sorglegt að við sjáum svona bakslag í réttindabaráttu hinsegin fólks,“ segir Guðmundur Ingi í samtali við mbl.is, en hann er staddur í Noregi ásamt norrænum samstarfsráðherrum sínum. Í morgun lögðu þeir blóm fyrir utan staðinn þar sem árásin átti sér stað.

Ljósmynd/Aðsend

„Maður bjóst ekki við þessu einhvers staðar eins og hér í Noregi, þannig það er kannski ennþá nær manni og kemur þess vegna óneitanlega ennþá meira við mann. Það er bara þannig. Maður er bara mannlegur með það,“ segir Guðmundur Ingi.

Mikilvægt að halda baráttunni áfram

Þá segir hann að það sé einstaklega mikilvægt að halda baráttunni áfram.

„Við höldum áfram að vera sýnileg og það þarf náttúrlega að auka skilning og fræðslu. Það er viðvarandi verkefni sem að er algjörlega nauðsynlegt til þess að við ölumst upp með, lifum við og virðum þessi sjálfsögðu mannréttindi,“ segir Guðmundur Ingi og bætir við:

„Því að við eigum öll rétt á því að elska þau sem við viljum. Það er einfaldlega þannig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert