Ardian sættir sig ekki við kaupsamninginn

Franski fjárfestingasjóðurinn Ardian er ekki reiðubúinn að ljúka viðskiptunum um kaup á Mílu ehf. af Símanum hf., á grundvelli óbreytts kaupsamnings.

Frá þessu greinir Síminn í tilkynningu til kauphallarinnar.

Kaupsamningurinn hljóðaði í október upp á rúma 78 millj­arða ís­lenskra króna, eða 519 millj­ón­ir evra samkvæmt genginu þá.

Í tilkynningunni segir að Ardian hafi upplýst Símann í dag um að það væri mat sjóðsins að tillögurnar, sem hann hefði lagt fyrir Samkeppniseftirlitið, varðandi breytingar á fyrirhuguðum samningi, væru íþyngjandi og þess eðlis að fela í sér neikvæð áhrif í skilningi kaupsamnings aðila.

Það sé þá mat Ardian að ef samruninn verði samþykktur af hálfu samkeppnisyfirvalda, með fyrirliggjandi skilyrðum feli það í sér að eitt af skilyrðum þess að viðskiptin gangi í gegn samkvæmt kaupsamningnum teljist ekki uppfyllt.

Hefur Ardian upplýst að félagið sé ekki reiðubúið til þess að ljúka viðskiptunum á grundvelli óbreytts kaupsamnings, eins og áður sagði.

Ljóst er af þessu að Síminn mun þurfa að ræða við Ardian um atriði sem varða kaupsamning aðila, samhliða viðræðum Ardian við Samkeppniseftirlitið, segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert