„Góðir félagar, ég og Dagur“

Kristrún Frostadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og …
Kristrún Frostadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn. Samsett mynd

„Við tókum bæði ákvarðanir á okkar eigin persónulegu forsendum. Við erum góðir félagar, ég og Dagur, og við höfum alltaf unnið vel saman. Þegar allt kemur til alls er þetta risastór ákvörðun og fólk verður að gera það upp við sjálft sig hvernig það vill hafa hlutina.“

Þetta segir Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is eftir að hún tilkynnti í Iðnó í dag að hún hefði ákveðið að bjóða sig fram til formennsku í flokknum.

Undanfarna mánuði hefur verið til umræðu að formannslagur gæti verið í uppsiglingu innan Samfylkingarinnar, á milli Kristrúnar og Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Fram kom í gær­morg­un að Dag­ur ætlaði ekki ætla að bjóða sig fram sem formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar og um svipað leyti boðaði Kristrún til fund­ar­ins í dag.

Kristrún kveðst aðspurð ekki vita hvernig málin standa með mögulega mótframbjóðendur gegn henni.

„Ég einbeiti mér að því sem ég stend fyrir og hvert ég vil sjá flokkinn fara og mitt stuðningsfólk. Við sjáum svo bara hvernig málin þróast.“

Stundi „pólitík óhjákvæmileikans“

Kristrún segir núverandi ríkisstjórn stunda „pólitík óhjákvæmileikans“. Ríkisstjórnin skýli sér á bak við að það sé einfaldlega ekki hægt að gera betur. Hún segir í samtali við mbl.is að hún vilji „skýra málflutninginn“ og „fara aftur í kjarnann“.

Spurð hvað hún vilji að Samfylkingin geri öðruvísi nú en í síðustu alþingiskosningum, þegar Logi Einarsson var formaður og flokkurinn fékk slakt gengi, segir Kristrún:

„Aðalmálið núna er að við erum einbeitt og með skýran málflutning. Við eigum að vera leiðandi afl á Íslandi þegar kemur að því að stunda jákvæða pólitík.

Mín upplifun af ríkisstjórninni í dag er að þau eru að stunda pólitík óhjákvæmileikans. Það sé einfaldlega ekki hægt að gera hlutina betur.

Þetta snýst um að skýra málflutninginn, einfalda hann og fara aftur í kjarnann. Svo þurfum við að ná virkari tengingu við fólkið í landinu. Við getum bara gert það í samtölum maður á mann,“ segir Kristrún.

Kristrún Frostadóttir á blaðamannafundinum í dag.
Kristrún Frostadóttir á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vill sameina flokkinn um færri mál

Kristrún kveðst vilja leggja ofuráherslu á kjarnamál jafnaðarmanna, sem séu kjör venjulegs fólks í landinu.

„Við erum að tala um þessi stóru mál þar sem áskoranir liggja í dag, heilbrigðismálin, húsnæðismálin og síðan er það auðvitað líka að vera með trúverðuga ríkisfjármálastefnu.

Ástæðan fyrir því að margar velferðarúrbætur standa kyrrar í dag er að það hefur ekki verið vilji til þess að fjármagna þær. Samgönguúrbætur, lífeyris- og tryggingamálin eru stopp út af þessu.

Ég hef þá trú að ef við sameinumst um færri mál getum við mætt af alefli og aukið trúverðugleika okkar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert