Bjarni: „Ég ætla ekki að hringja á vælubílinn“

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segist aðspurður hafa lagt áherslu á að Sjálfstæðisflokkurinn fengi forsætisráðuneytið við myndun ríkisstjórnarinnar en það hafi ekki náðst samstaða um það. Þess í stað hafi flokkurinn fengið fleiri ráðherra og aukið val um ráðuneyti, sem hafi orðið til þess að auðveldara var að koma stefnumálum flokksins að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Þetta kemur fram í viðtali við Bjarna og Guðlaug Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og mótframbjóðandi Bjarna um formannsstólinn, í Dagmálum sem sýndur er í opinni dagskrá á mbl.is.

Í þættinum er vikið að ríkisstjórnarsamstarfinu og hlutverki Sjálfstæðisflokksins í því. Í kjölfar þess að  Guðlaugur Þór bauð sig fram hefur verið rætt um það hvort til greina komi að slíta samstarfi við Vinstri græna og Framsóknarflokkinn eða hvort að samstarfinu verði jafnvel sjálfhætt, þar sem ekki ríki sama traust á milli Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og Guðlaugs Þórs og gerir á milli Katrínar og Bjarna.

Erfitt að vera í stjórnmálum

Guðlaugur Þór segir þó að Sjálfstæðisflokknum bera skylda til að vinna af einurð að þeim stjórnarsáttmála sem búið er að vinna að og samþykkja. Hann segir að flokkurinn muni klára kjörtímabilið í þessari ríkisstjórn.

Bjarni segir að ríkisstjórnarsamstarf þriggja flokka sé jafnvægislist og slíkt gangi ekki ef einhverjum þingflokki líði illa í því samstarfi.

„Ég held að okkur líði öllum þannig að þriggja flokka samstarf geti verið mjög krefjandi. En ég ætla ekki að hringja á vælubílinn, það verður bara að taka á því. Það er erfitt að vera í stjórnmálum, þú færð ekki allt sem þú vilt,“ segir Bjarni.

Hægt er að sjá brot úr viðtalinu hér fyrir ofan en þáttinn má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert