„Ekki til þess fallið að rífa upp stemninguna“

Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambandsins.
Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambandsins. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segir einstaklinga í skólastarfinu hafa orðið fyrir vonbrigðum með umfjöllunina í sjónvarpsþáttunum Börnin okkar sem sýndur er hjá Ríkissjónvarpinu. 

Mbl.is hafði samband við Magnús eftir að hann hafði orð á þessu á Facebook í dag. Segist hann hafa heyrt í mörgum kennurum og starfsmönnum í skólum vegna þessa. Fjórum þáttum er lokið af sex og því á eftir að sýna tvo þætti.

Fram til þessa þykir Magnúsi umfjöllunin vera einhliða og er undrandi á því að ekki heyrist fleiri sjónarmið þeirra sem starfa í skólunum heldur þeirra sem starfa utan skólanna. 

„Í vor var okkur kynnt að gera ætti þætti um íslenskt skólastarf og við erum nokkur sem störfum í skólakerfinu sem vorum boðuð í viðtöl. Sjónarhornið í þáttunum hingað til hefur verið neikvætt og við erum farin að velta fyrir hvað þættirnir eiga að segja okkur. Hingað til hafa nánast eingöngu verið dregnar fram neikvæðar hliðar og vandamál. Varla hefur komið við sögu hvað nú þegar er verið að gera til að taka á þeim vandamálum sem koma upp eða neinar upplýsingar um slík verkefni. Fyrir vikið hef ég fengið ófá skilaboðin og einnig höfðu margir orð á þessu á þinginu okkar um daginn. Fólki finnst eins og verið sé að tala um það en ekki við það,“ segir Magnús en hann vill taka skýrt fram að enn séu tveir þættir eftir og því geti ásýnt þáttanna í heild sinni átt eftir að breytast. 

„Við fögnum allri umræðu um skólamál á Íslandi en þótt fjallað sé á neikvæðan hátt um þau verkefni sem eru í gangi í skólunum þá virðist ekki vera gerð tilraun til að leita til þeirra sérfræðinga sem eru að vinna í skólakerfinu sem eru jú kennararnir. Frekar er leitað til þeirra sem vinna fyrir utan skólakerfið eða eru að reyna að rýna í skólastarfið. Ég held ég geti alveg fullyrt að ekkert hafi komið fram í þáttunum til þessa sem ekki sé verið að vinna í. Því hefði verið einfalt að fá það staðfest, hvort sem það er félagsfærni eða læsi. Í þættinum í gær var svo heil starfsstétt töluð niður og fullyrt að þeirra starf hafi ekki tekist . Einnig var látið eins og viðbrögð skóla séu algerlega bundin greiningum. Er þetta alrangt í báðum tilfellum. Þetta virkar á mann sem sérkennilegt viðhorf og ekki til þess fallið að rífa upp stemninguna hjá þeim sem starfa í skólunum.“

Magnús segir marga kennara furða sig á nálguninni í sjónvarpsþáttunum …
Magnús segir marga kennara furða sig á nálguninni í sjónvarpsþáttunum Börnin okkar. mbl.is/Golli

Spurður um hvað mætti betur fara að hans mati í umfjölluninni um skólamál segir Magnús að jafnvægi þurfi að vera í umfjöllun fjölmiðla eins og RÚV í þessu tilfelli.  

„Ég endurtek að ég fagna umræðu um skólamál en það þarf að vera jafnvægi í umfjölluninni. Eins myndi ég vilja sjá fólk benda á hugsanlegar lausnir heldur en að tala eingöngu um það sem eigi ekki að gera að þeirra mati. Staðreyndin er bara sú að inni í öllum skólum á landinu er nú verið að vinna að þeim málum sem tekin eru fyrir í þáttunum.

Þetta hefði því getað verið góð leið til að sýna fólki á besta tíma í opinni dagskrá hversu öflugt og mikilvægt starf er unnið í skólunum. Með þeim fyrirvara að tveir þættir eru eftir og kannski munu þá önnur sjónarhorn koma fram,“ segir Magnús Þór Jónsson í samtali við mbl.is. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert