„Ég læt þetta ekki trufla mig, ég er bara kúl“

Helga Vala lítur ekki svo á að vegið sé að …
Helga Vala lítur ekki svo á að vegið sé að hennar stöðu innan flokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég læt þetta ekki trufla mig, ég er bara kúl,“ segir Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar, en henni var í gær skipt út sem þingflokksformanni fyrir Loga Einarsson. „Formaðurinn boðaði breytingar og þetta er hluti af þeim,“ segir hún jafnframt.

Kristrún Frostadóttir, nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar, lagði fram tillögu á fundi þingflokksins í gær um að Logi tæki við sem þingflokksformaður og var sú tillaga samþykkt.

Helga Vala segist halda sínu striki og það sé engin ólga innan flokksins vegna breytinganna. Það sé þó ljóst að fólki sé ekki sama og hún hefur fundið fyrir góðum stuðningi.

„Það er mjög gott að finna kröftugan stuðning og ég hef alveg fundið hann áður. Samfylkingin stendur ekki eða fellur með því hver er í hvaða stól.“

Spennandi að fylgjast með breytingunum 

Aðspurð hvers vegna hún telji að Kristrún hafi ákveðið að skipta henni út fyrir Loga segir Helga Vala: „Bara þetta, hún hefur talað fyrir því að breytingar væru í vændum og þetta er liður í því.“

Ástæðan sé ekki sú að þær séu ósammála um ákveðin mál, enda séu þær það ekki. Í september sagðist Helga Vala þó ósammála Kristrúnu varðandi nýju stjórnarskrána, en sú síðarnefnda sagði ekki meirihluta á þingi fyrir innleiðingu hennar og hún vildi ekki fara í vegferð sem hún sæi ekki fram á að skila í höfn. „Nei, nei, við erum ekki ósammála. Þetta er liður í breytingum. Hún er í breytingarfasa.“

Og hvernig líst þér á það?

„Það verður áhugavert, bara spennandi að fylgjast með.“

Hvorki sár né svekkt

Spurð hvort henni finnist vegið að sinni stöðu innan flokksins segir Helga Vala: „Nei, nei, ég hef rosalega litlar áhyggjur af minni stöðu. Ég finn það mjög sterkt hjá mínum flokksfélögum að ég þarf ekki að hafa áhyggjur af því.“

Hún segist hvorki sár né svekkt yfir að hafa verið skipt út. „Nei, nei. Mitt líf gengur ekki út á eitthvað svona. Alls ekki, ég er bara góð.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert