Vegið að málfrelsinu og fólk stimplað og útilokað

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Arnþór Birkisson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir stjórnun landsins nánast eingöngu byggjast á yfirlýstum markmiðum frekar innihaldi og raunverulegum áhrifum. Gott dæmi um þetta séu málefni hælisleitenda þar sem ráðherrar og þingmenn skreyti sig með frösum og hljómþýðum orðum eins og „mannúð.“

Umbúðastjórnmál, kallar hann þessa stjórnunarhætti. Þetta kemur fram í grein hans sem birtist í áramótablaði Morgunblaðsins.

„Það að gera Ísland að bestu söluvöru glæpagengjanna sem skipuleggja fólksflutninga hefur hins vegar ekkert með mannúð að gera. Þvert á móti. Ef alvara væri að baki því að gera sem mest gagn fyrir sem flesta þeirra sem eru í mestri neyð væri haldið allt öðruvísi á málum,“ segir Sigmundur. Betra væri að læra af stefnu nágrannalandanna.

Ástandið stjórnlaust

Hann segir ástandið stjórnlaust. „Stefna og skilaboð ríkisstjórnarinnar hafa áorkað því að Ísland á nú líklega Evrópumetið í straumi hælisleitenda. Landið sem fæstir leituðu til fyrir nokkrum árum.“ Enginn viti hvar fólkið eigi að búa eða hver eigi að borga fyrir það.

Í framhaldinu kemur hann inn á vandann í heilbrigðiskerfinu þar sem hann segir biðlista aldrei hafa verið lengri. Hann tengir þessa tvo málaflokka saman, enda nýti útlendingar sé aðstöðuna hér á landi.

„Enn er fólk sent til útlanda í þrefalt dýrari aðgerðir en hægt væri að framkvæma hér heima. Í staðinn eru útlendingar fluttir til Íslands til að nýta aðstöðuna hér. Hvernig má þetta vera? Jú vegna þess að þótt sífellt meira fjármagn sé sett í heilbrigðiskerfið er ekkert gert í því að laga kerfið sjálft.“

Pólitísk sýndarmennska víða

Sigmundur segir þau sem stjórna landinu ekki ráða við að marka stefnu og fylgja henni áfram. Kerfið og þeir sem spili með það ráði för. Afleiðingarnar af getuleysi stjórnvalda pólitísku sýndarmennskunni megi sjá víða. Til dæmis í þeim áformum að banna ekki bara vinnslu á gasi og olíu, heldur einnig rannsóknir í íslenskri lögsögu.

„Á sama tíma ríkir orkukrísa og öryggi Evrópu er ógnað vegna skorts á gasi sem meira að segja ESB skilgreinir nú sem náttúruvænan orkugjafa. Eftirspurn eftir gasi mun bara aukast samhliða umhverfisvænni orkuframleiðslu en íslensk stjórnvöld ætla að láta Katar, Venesúela, Rússland og aðra um framleiðsluna. Um leið koma þau í veg fyrir stærsta tækifærið til að efla byggð og velmegun á Norður- og Austurlandi og auðvitað Íslandi öllu.“

Þarf að verja grunngildin

Þá segir hann vegið að málfrelsinu og verst af öllu sé tilhneiging ráðandi afla hér á landi og víðar til að verja stöðu sína með því að hindra gagnrýna umræðu. Segi menn eitthvað sem ekki falli að rétttrúnaðinum geti þeir átt von á að vera stimplaðir og útilokaðir.

„Við þurfum að verja þau grunngildi sem hafa skilað samfélaginu árangri um aldir, enduruppgötva raunverulega framfaraþrá, leyfa lýðræðinu að gera það sem því var ætlað og þora að takast á um landsins gagn og nauðsynjar.“

Lesa má grein Sigumundar Davíðs í áramótablaði Morgunblaðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert