Virðast vilja hafa okkur öll í formalíni

Þorgerður Katrín á landsþinginu í morgun.
Þorgerður Katrín á landsþinginu í morgun. Ljósmynd/Golli

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði í stefnuræðu sinni á landsþingi flokksins að færri fylgi stjórnmálaflokkum í blindni og fleiri tali gegn samþjöppun valds sem gömlu flokkarnir standi vörð um.

Hún vill sömuleiðis að misnotkun vímugjafa verði hreint og beint heilbrigðismál.

„Sterk öfl virðast helst vilja hafa okkur öll, landið og miðin í formalíni til viðhalda forréttindum sínum. Og trúa því að farsælast sé að við hverfum aftur til þess tíma þegar fáir, stórir flokkar skiptu með sér völdum. Þessi öfl hafa enn of mikil völd. Meðal annars við ríkisstjórnarborðið. Fólkið sem þar situr treður marvaðann á meðan þjóðþrifamálin sitja á hakanum,“ sagði formaðurinn meðal annars í ræðunni, að því er kemur fram í tilkynningu.

Þorgerður hóf ræðu sína á að lýsa því samfélagi sem Viðreisn boðar, þar sem stöðugur gjaldmiðill og sanngjarn, frjáls markaður fær að njóta sín - neytendum til hagsbóta. Hún sagði efnahagslega ringulreið ríkja vegna tryggðar ríkisstjórnarflokkana við krónuna.



Vísaði í 40 ára þingræðu

Hún vísaði máli sínu til stuðnings í 40 ára gamla þingræðu Vilmundar Gylfasonar, fyrrverandi alþingismanns, í umræðu um vantraust á ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens. Sú ríkisstjórnin var borin á borð sem ríkisstjórn utan um frið, en þá eins og nú er raunin sú að ríkisstjórnin er mynduð utan um ekkert nema frið til varnar völdum og hagsmunum.

„Friður núverandi ríkisstjórnar varð nefnilega til utan um ekki neitt. Friður um kyrrstöðu er réttnefnt svikalogn,” sagði Þorgerður og bætti við: „Eða er friður um það að stóru fyrirtækin fái að gera upp í erlendri mynt, en litlu fyrirtækin ekki? Að skúringafólk, kennarar, strætóbílstjórar og skrifstofufólk sé neytt til að gera upp í íslenskum krónum? Er friður um það að venjuleg, íslensk heimili séu neydd í hlutverk spákaupmanna á gjaldeyrismarkaði til að verða ekki undir?“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert