Engin skýr merki um virkni

Rúmur helmingur ísþekjunnar hefur bráðnað.
Rúmur helmingur ísþekjunnar hefur bráðnað. mbl.is/Árni Sæberg

Engin skýr merki eru um að virkni í Öskju sé að aukast og því er ekki ástæða til að grípa til ráðstafana umfram núverandi vöktun. Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar. 

Stöðugt landris hefur verið í Öskju frá því í ágúst árið 2021 sem talið er að tengist kvikusöfnun undir eldfjallinu. Þá hefur jarðskjálftavirkni á svæðinu verið keimlík þeirri virkni sem mældist árið 2022. 

Á dögunum hóf einnig ísþekjan yfir Öskjuvatni að hörfa og er rúmur helmingurinn nú bráðnaður. 

Vök er að jafnaði á Öskjuvatni en það þýðir að hvass vindur getur náð að grípa í vatnið og koma af stað lóðréttri blöndun í vatninu. Getur þá varminn í vatninu sjálfu nægt til að bræða ís.

Á vef Veðurstofunnar kemur fram að síðastliðinn mánuð hafi verið nokkuð um sunnan hvassviðri, sem m.a. sjást á mælum í Upptyppingum. Ekki er ljóst hvort að það hafi orsakað bráðnunina en vindurinn kann að hafa komið vatninu í  yfirborði  Öskjuvatns á hreyfingu. Ekkert er þó hægt að útiloka um tengsl bráðnunarinnar og virkninni sem nú mælist í eldstöðinni. 

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2023/02/16/telja_skjalfta_hafa_opnad_sprungur_a_svaedinu/

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert