Telja skjálfta hafa opnað sprungur á svæðinu

Rúmlega helmingur ísþekjunnar hefur bráðnað.
Rúmlega helmingur ísþekjunnar hefur bráðnað. mbl.is/Árni Sæberg

„Ef þetta heldur svona áfram þá endar þetta með eldgosi. Þá erum við að tala um eftir einhverja mánuði eða ár. Því að væntanlega verða meiri jarðskjálftar og svoleiðis áður en gosið verður. Við vonum það allavega,“ segir Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur hjá jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.

Hann fór ásamt hópi jarðvísindamanna í leiðangur yfir Öskjuvatn í dag um borð í eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF.

Vísindamenn í TF-SIF yfir Öskjuvatni.
Vísindamenn í TF-SIF yfir Öskjuvatni. mbl.is/Árni Sæberg

Vélin er búin hitamyndavél og voru myndir teknar en Ármann gerir ráð fyrir að eftirvinnslu þeirra verði lokið eftir helgi. Þá var þremur hitamælum kastað niður í vatnið. 

„Einn verður á 20 metrum, einn á 5 eða 10 metrum og einn við yfirborðið. Svo á þetta að fljóta í svolítinn tíma,“ segir Ármann en tekur fram að niðurstöður séu ekki væntanlegar fyrr en eftir „marga daga“.

Jarðhiti á yfirborði að aukast

Rúmlega helmingur ísþekjunnar er lá yfir Öskjuvatni hefur nú hörfað. Hinn hluti vatnsins er hulinn kurluðum ís og aðeins örfáir ísflekar eru sjáanlegir.

Svipaður atburður átti sér stað árið 2012 en þá byrjaði ísþekjan að bráðna í febrúar. Var Öskjuvatn orðið nánast íslaust rétt fyrir páska.

Ólíkt þeirri þróun sem er núna í gangi hafði ekkert landris átt sér stað í aðdraganda bráðnunarinnar árið 2012. Auk þess hefur ísinn hörfað mun hraðar núna samanborið við atburðinn fyrir 11 árum.

Þá eru komin fram snjólaus svæði austan og sunnan við Bátshraun.

„Þessi svæði sem eru orðin snjólaus núna voru það ekki í fyrra. Það þýðir þá að jarðhiti á yfirborði er eitthvað að aukast líka,“ segir Ármann. 

Hitamælum var kastað í vatnið.
Hitamælum var kastað í vatnið. mbl.is/Árni Sæberg

Skjálfti opnað sprungur

Stöðugt landris hefur verið við Öskju frá því í ágúst árið 2021 og mælist heildarfærsla lóðrétt nú um 50 sentimetra. Þá hefur skjálftavirkni sömuleiðis aukist undanfarna mánuði.

Jarðvísindamenn telja að ástæðuna megi rekja til kvikuinnskots á 2 til 3 kílómetra dýpi. 

Ekki liggur alveg fyrir hvað það er sem orsakar bráðnunina en eins og áður hefur komið fram eru breytingar í jarðhita taldar líkleg orsök. Telja vísindamenn að skjálfti þann 3. febrúar upp á 2,2 við Víti hafi opnað sprungur á svæðinu sem hafi leitt til þess.

„Daginn eftir sjáum þá sjáum við að það er komin vök á ísinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert