Segir Mörtu fara með rangt mál

Davíð Þorláksson segir rangfærslur koma fram í frétt Morgunblaðsins þar …
Davíð Þorláksson segir rangfærslur koma fram í frétt Morgunblaðsins þar sem Marta Guðjónsdóttir var til viðtals. Samsett mynd

Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna ohf. segir Mörtu Guðjónsdóttur fara með rangfærslur í umræðu um samgöngusáttmálann.

Marta var til viðtals í Morgunblaðinu í dag þar sem hún ræddi tillögu hennar og annarra borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að sáttmálinn verði endurskoðaður.

Hækkunin nemi 11,5 en ekki 50 hundraðshlutum

Að sögn Davíðs snýst málið ekki um skoðanaágreining heldur hreinar og klárar rangfærslur.

Marta sagði í viðtalinu að forsendur sáttmálans væru brostnar eftir að uppfærð kostnaðaráætlun hans hækkaði um 50%. Davíð vísar til þess að kostnaðaráætlunin hafi eingöngu hækkað að núvirði um 17 milljarða króna, sem samsvarar 11,5% hækkun.

Þá segir Davíð engan fót fyrir yfirlýsingum Mörtu um að ljósastýringar geti aukið umferðarflæði um 20%. Þessu hefði ekki verið haldið fram af neinum sérfræðingi á sviði umferðarmála, hvorki á vegum ríkis, borgar, Betri samgangna né innlendum eða erlendum verkfræðistofum.

Það væri óskandi að þetta væri rétt, enda væri þá fyrir löngu búið að kippa þessu í liðinn,“ segir Davíð. 

Nær þriðjungi stofnvegaframkvæmda lokið

Davíð bendir einnig á að þremur af ellefu stofnvegaframkvæmdum Samgöngusáttmálans sé nú þegar lokið og þeirri fjórðu „nær lokið“. Því séu orð borgarfulltrúans um að framkvæmdir séu ekki hafnar, misvísandi.

Að lokum segir Davíð það ekki rétt að ekki liggi fyrir rekstraráætlun eða rekstrarkostnaður um borgarlínuna og vísar þar til áfangaskýrslu um drög að rekstraráætlun nýs leiðanets en þar er borgarlína með talin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert